Magn eykst en verð lækkar

Deila:

Verkfall sjómanna og lækkað verð í íslenskum krónum koma til með að setja svip sinn á afkomu sjávarútvegsfyrirtækja 2017. Aflaheimildir jukust á árinu, en meðalverð á sjávarafurðum lækkaði talsvert.

Þetta kemur fram í úttekt Deloitte á afkomu sjávarútvegsfyrirtækja á milli áranna 2015 og 2016 og ati á afkomunni á síðasta ári. Helstu niðurstöður um áhrifaþætti og áætlaða afkomu í fyrra eru eftirfarandi:

  • Á árinu 2017 er veitt magn um 10% meira en 2016. Munar þar mestu um auknar veiðar á loðnu samanborið við síðasta ár. Á sama tíma hefur hins vegar veitt magn í nokkrum mikilvægum tegundum dregist saman.
    • Á nýliðnu fiskveiðiári jukust aflaheimildir um 22% samanborið við fiskveiðiárið 15/16. Afli til aflamarks stóð hins vegar því sem næst í stað milli ára.
    • Meðalverð á sjávarafurðum lækkaði talsvert milli ára í íslenskum krónum eða um 8,1% þrátt fyrir hækkun í erlendri mynt.
    • Miðað við aflaverðmæti má gera ráð fyrir samdrætti á rekstrartekjum sjávarútvegsfélaga. Þar hefur áhrif lækkað markaðsverð í íslenskum krónum sem og samsetning heildarafla.

Líkur standa til að EBITDA lækki 2017

  • Miðað við hreyfingu helstu hagstærða og útflutningsverðmæti sjávarafurða má reikna með að EBITDA lækki milli ára.
    • Erfitt er að spá með vissu fyrir um getu fyrirtækjanna til að bregðast við neikvæðum ytri aðstæðum til skemmri tíma. Þessi niðurstaða er studd í fyrstu birtu ársreikningum 2017 sem og ársreikningum félaga sem eru með fiskveiðiárið sem sitt uppgjörsár (fiskveiðiárinu lauk 31. ágúst 2017).
    • Rekstrarkostnaður að því marki er hann snýr að sjósókn og aflahlut, lækkar sökum sjómannaverkfalls á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs. Hins vegar báru félögin töluverðan kostnað af landvinnslu á meðan verkfallinu stóð en höfðu litlar sem engar tekjur.
    Ljósmynd Hjörtur Gíslason.
Deila: