Nýr samningur um Húna II

Deila:

Undirritaður hefur verið nýr samstarfssamningur Akureyrarbæjar og Hollvinafélags Húna II sem gildir til ársins 2020. Markmið Akureyrarbæjar með samningnum er að styðja við starf félagsins með framlagi til siglinga og verkefna í þágu bæjarbúa. Um leið gerir samningurinn Hollvinafélaginu betur kleift að standa undir rekstri eikarbátsins og halda honum við samkvæmt frétt á heimasíðu Akureyrar, akureyri.is.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri og Hjörleifur Einarsson formaður Hollvina Húna II við undirritun samningsins.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri og Hjörleifur Einarsson formaður Hollvina Húna II við undirritun samningsins.

„Árið 2018 er tileinkað menningararfi um alla Evrópu og á Íslandi er áhersla lögð á strandmenningu. Það er því afar ánægjulegt og vel við hæfi að nú sé skrifað undir þennan samning því Húni II hefur um árabil verið notaður til að fræða jafnt unga sem aldna um strandmenningu þjóðarinnar.

Verkefnin sem falla undir samninginn eru fræðsluferðir fyrir nemendur 6. bekkja grunnskóla bæjarins, skemmtisiglingar á sjómannadaginn, á þjóðhátíðardaginn 17. júní, um verslunarmannahelgina og á Akureyrarvöku, einnig sérstök skemmtisigling fyrir eldri borgara.

Í tilefni af Evrópumenningararfsárinu 2018 bjóða Hollvinir Húna II að auki upp á eina til tvær fríar ferðir fyrir almenning en ferðirnar tengjast strandmenningu sem er sem áður segir þema ársins á Íslandi. Loks tekur Húni II þátt í tilraunaverkefninu “Að míga í saltan sjó” í samvinnu við Ungmennahúsið í Rósenborg en það gengur út á að bjóða ungmennum sem hafa verið í félagslegum vanda að taka þátt í lífinu um borð og fræðast,“ segir í frétt á heimasíðu bæjarins.

 

 

 

Deila: