Uppboð aflaheimilda í Færeyjum að hefjast

Deila:

Uppboð aflaheimilda í Færeyjum hefjast 26. apríl þegar heimildir til veiða á 25.000 tonnum af kolmunna verða seld á opnu uppboði. Sú breyting hefur orðið á uppboðunum að nú verða í boði heimildir til eins árs, þriggja ára og átta ára.

Fyrirkomulag uppboðanna verður annars það sama og síðustu ár; opið uppboð sem Fiskmarkaður Færeyja stendur fyrir og lokað uppboð, sem Vörn, Fiskistofa Færeyja, heldur.

Meirihluti heimilda til veiða á kolmunna og minnihluti heimilda til síldveiða verða á opnu uppboði reiknað í tonnum. Heimildir til veiða á botnfiski og það sem eftir stendur af kolmunna og síld verða á lokuðu uppboði.

Alls verða boðin upp réttindi til veiða á 4.769 tonnum af botnfiski, 89.169 tonn af kolmunna og 12.490 tonn af norsk-íslenskri síld. Botnfiskheimildirnar eru að megninu til þorskur og lítils háttar af ýsu og eru þær til veiða í Barentshafi, 3.335 tonn innan lögsögu Rússa, 1.098 tonn innan lögsögu Norðmanna og 336 tonn við Svalbarða.

Fyrstu uppboðin verða opin hjá Fiskmarkaði Færeyja og er um að ræða heimildir til veiða til eins árs á kolmunna. 26. apríl verða 25.000 tonn boðin upp og 2. maí verður sama magn boðið upp.

 

Deila: