153.000 tonn fyrir sjómannadag

Deila:

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar höfðu tekið á móti tæplega 153.000 tonnum af hráefni á þessu ári fyrir nýliðna sjómannadagshelgi. Börkur NK landaði 1.740 tonnum af kolmunna í Neskaupstað sl. föstudag og þá fór verksmiðjan þar yfir 100.000 tonna markið. Beitir NK landaði um 2.000 tonnum á sama tíma á Seyðisfirði og þar með hafði verksmiðjan þar tekið á móti rúmlega 46.000 tonnum á árinu. Verksmiðjan í Helguvík tók síðan á móti tæplega 7.000 tonnum af loðnu á síðustu vertíð samkvæmt frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Verksmiðjan í Neskaupstað hefur bæði tekið á móti loðnu og kolmunna það sem af er árinu en Seyðisfjarðarverksmiðjan eingöngu kolmunna og Helguvíkurverksmiðjan eingöngu loðnu eins og fyrr segir.

Hafþór Eiríksson verksmiðjustjóri í Neskaupstað segir að þar hafi verið tekið á móti mun meira hráefni en á sama tíma í fyrra. Í fyrra hafði verksmiðjan tekið á móti 76.000 tonnum í byrjun júní. Mestu munar um aukinn kolmunnaafla en í ár hafa 54.000 tonn af kolmunna borist til Neskaupstaðar en einungis 41.000 á sama tíma í fyrra.

Gunnar Sverrisson verksmiðjustjóri á Seyðisfirði segir að til verksmiðjunnar þar hafi borist um 10.000 tonnum meiri kolmunnaafli en á sama tíma í fyrra.

Eggert Ólafur Einarsson verksmiðjustjóri í Helguvík segir að verksmiðjan þar hafi tekið á móti mun minna hráefni en í fyrra og muni þar tæplega 10.000 tonnum. „Loðnukvótinn gaf ekki tilefni til að við fengjum meira hráefni en raun bar vitni,“ segir Eggert.
Ljósmynd Smári Geirsson.

 

Deila: