Megninu af bleikjuseiðunum bjargað

Deila:

Starfsmönnum Íslandsbleikju hefur tekist að bjarga um 95 prósent af bleikjuseiðunum eftir að seiðastöð fyrirtækisins á Núpum í Ölfusi brann í síðustu viku. Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Íslandsbleikju, segir í samtali á ruv.is, að tjón á tækjabúnaði og öðru sé mikið en þeir séu komnir í gegnum mesta skaflinn.

Eldur kviknaði í seiðastöðinni um miðnætti síðasta þriðjudagskvöld. Um milljón fiskar voru í eldiskerjum í húsinu sem fór illa í eldinum og óttast var að mikið tjón yrði í framleiðslunni, ekki síður en á húsnæði og tækjabúnaði. Tryggingafyrirtækið Sjóvá sendi frá sér afkomuviðvörum vegna brunans fyrir helgi en svo virðist sem betur hafi farið en óttast var, í það minnsta í framleiðslunni. Jón Kjartan segir erfitt að slá á hversu mikið tjónið á tækjabúnaðinum er en það stefni í að fiskurinn sleppi betur en óttast var. „Við erum að verða komnir í gegnum mesta skaflinn. Það er ekki komið neitt mat á tjónið en það hefði auðvitað verið alveg gífurlegt tjón ef við hefðum misst allan fiskinn og valdið okkur tjóni í alveg tvö ár. Við fáum smá högg á framleiðsluna en það verður ekki eins mikið og við vorum hræddir um,“ segir Jón Kjartan í samtalinu.

Nú er búið að rífa um þrjátíu prósent af annarri hlið hússins, koma upp öryggiskerfi og unnið að því að setja upp kerfi til fóðurgjafar. „Við erum búnir að rífa það sem við ætlum að rífa. Við náðum að bjarga langmestu af fiskinum, um 95 prósent og gera hann stöðugan og við erum að vona að það sé komin ró á hann. Svo erum við að byrja að flytja það sem við getum í dag, þetta er stöðugt umhverfi en ekki starfhæft en við erum allavega ekki hræddir um að missa mikið meira,“ segir Jón Kjartan.

Deila: