Samið um fyrirkomulag loðnuveiða

Deila:

Ísland, Grænland og Noregur hafa gert með sér samkomulag um stjórnun og fyrirkomulag loðnuveiða við Ísland til næstu ára. Einnig hafa þjóðirnar gert tvíhlíða samninga sín á milli.

Samkvæmt samkomulaginu skal loðnukvótinn byggður á tillögum fiskifræðinga að undangegnum rannsóknum á loðnustofninum. Næstu árin er miðað við að vertíðin standi frá 20. júní og ljúki 15. apríl árið eftir. Frá og með árinu 2021 hefst vertíðin þó ekki fyrr en 15. október, en stendur eftir sem áður til 15. apríl.

Fysta ráðgjöf um heildarkvóta skal byggjast  á ráðleggingum Alþjóða hafrannsóknaráðsins og liggja fyrir eigi síðar en 1. desember.  Skal sú ráðgjöf byggjast á mælingum á ókynþroska loðnu að loknum haustleiðangri.

Næsta ráðgjöf skal byggjasat á mælingum á kynþroska loðnu og skal gefin út strax og niðurstöðu liggja fyrir.

Endanleg ráðgjöf skal svo byggjast á mælingum væntanlegrar hrygingarloðnu eftir leiðangur í janúar eða febrúar. Heildarkvótinn getur þó breyst ef frekari leiðangrar gefa tilefni til þess.

Heildarkvótinn skiptist þannig að 80% koma í hlut Íslands, 15% hlutur fellur Grænlendum í skaut og hlutur Norðmanna er 5%. Þjóðirnar mega sem meginregla stunda veiðar innan eigin lögsögu.

Að auki kemur til samningur Íslands og Grænlands þess efnis að Grænlendingum sé heimilt að taka loðnuafla sinn sinn innan íslenskrar lögsögu eins og áður. Loðnafli eftir 15. febrúar sunnan 64°30  má ekki fara yfir 35.000 tonn. Heimildir til vinnslu loðnu um borðs innan íslensku lögsögunnar skulu takmarkaðar við 6.500 tonn og bundnar við þrjú skrásett skip.

Norðmönnum er heimilt eins og áður að taka allan afla sinn á Íslandsmiðum norðan 64°30. Viðbótarkvóta skal veiða innan sömu vertíðar. Norðmenn mega ekki stunda veiðar eftir 22. febrúar.  Komi til aukningar á heildarkvóta geta íslensk stjórnvöld heimilað veiðar lengur. Fjöldi báta innan lögsögunnar samtímis er takmarkaður við 30 skip. Norsk stjórnvöld heimila Íslendingum að veiða allan sinn kvóta innan lögsögunnar umhverfis Jan Mayen.

Í tvíhliða samningi Grænlands og Noregs felst að Norðmenn megi stunda loðnuveiðar innan tveggja svæða við Grænland og norðan 64°30. Á móti kemur að Grænlendingar mega veiða loðnu við Jan Mayen. Þá er Grænlendingum heimilt að taka þann botnfiskskvóta sem þeir fá frá Noregi og Rússlandi innan norskrar landhelgi og við Svalbarða.

Ekki er heimilt að færa ónýttan kvóta milli vertíða. Fari eitthvert landanna fram yfir heimildir sínar verður sama magn dregið af kvóta þess árið eftir og úthlutað til hinna í samræmi við hlutfallslega skiptingu heildaraflans. Nýti Grænlendingar og Norðmenn ekki heimildir sínar á vertíðinni, geta Íslendingar nýtt sér hann. Fari svo að endanlegur kvóti sé gefinn út 5. febrúar eða síðar, geta íslensk skip nýtt sér hann, en þeim heimildum verður að skila til hinna þjóðanna á næstu vertíð.

Deila: