Góð veiði á Vestfjarðamiðum

Deila:

Ísfisktogarinn Akurey AK kom til hafnar í Reykjavík í fyrradag með um 150 tonna afla. Skipið var að veiðum á Vestfjarðamiðum og segir skipstjórinn í veiðiferðinni, Magnús Kristjánsson, í samtali á heimasíðu HB Granda,  aflabrögðin hafa verið góð.

,,Þetta er blandaður afli en mest er af þorski. Hann fengum við á Strandagrunni en svo fórum við á Halann og fengum þar karfa og ufsa. Það er góð karfaveiði á Halanum og besti tíminn fer nú í hönd. Ef að líkum lætur verður fínasta karfaveiði á Halanum í ágúst og september,“ segir Magnús en vegna þessarar góðu karfaveiði hafa skip ekki þurft að leita fyrir sér á öðrum veiðisvæðum eins og í Víkurálnum.

Magnús segir veiðiferðina hafa staðið í tæpa fimm sólarhring. Blíðuveður var á miðunum við komuna en í fyrradag brældi hressilega með 20 m/s af suðvestri.

,,Við lentum því í brælu rétt í lokin en svo var stefnan sett á Reykjavík,“ segir Magnús Kristjánsson.

 

Deila: