Mikill samdráttur í strandveiðum í júlí

Deila:

Strandveiðar hafa gengið hægt fyrri helming júlímánaðar. Aflinn fyrstu átta veiðidagana er, samkvæmt samantekt á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda, aðeins 1.066 tonn, enn var á sama tíma í fyrra 1.991 tonn. Bátum á veiðum hefur fækkað úr 579 í 513 og afli á bát að meðaltali hefur fallið úr 3.439 kílóum í 2.079 kíló.

Á svæði A hafa 197 bátar stundað róðra í júlí en það er fækkun um 28 báta frá því í fyrra. Dagar á sjó eru nú aðeins 600 á móti 1.412. Afli nú er 434 tonn á móti 1.008 í fyrra. Meðalafli á bát er nú aðeins 2.202 kíló sem er um helmingur meðalaflans í fyrra. Afli í róðri er nú að meðaltali 723 kíló, sem er 9 kílóum meira en í fyrra.

99 bátar hafa róið á svæði B, sem er 30 færra en í fyrra. Veiðidagar eru nú 354 á móti 630 og aflinn aðeins 231 tonn, sem er 133 tonnum minna en á síðasta ári. Meðalafli á bát er nú  2.329 kíló, en var 2.824 kíló. Meðalafli í róðri hefur hins vegar hækkað út 578 kílóum í 651.

Á svæði C hafa 102 bátar stundað veiðarnar sem er fækkun um 17. Aflinn er samtals 277 tonn, en í fyrra var hann 446 tonn. Veiðidagar eru nú 421 á móti 652 í fyrra. Meðalafli á bát er nú 2.711 kíló, sem er um þúsund kílóum minna. Meðal afli í róðri er nú 657 kíló en var í fyrra 684 kíló.

Bátum á strandveiðum á svæði C hefur andstætt hinum þremur fjölgað. Þeir eru nú 115 sem er 9 fleiri en í fyrra. Dögum á sjó hefur engu að síður fækkað úr 322 í 181 og afli fallið úr 173 tonnum í 125 tonn. Meðalafli á bát er nú 1.091 kíló á móti 1.653 kílóum í fyrra. Meðalafli í róðri hefur vaxið úr 538 kílóum í 693 kíló í ár.

 

Deila: