Stór og góður makríll

Deila:

Uppsjávarveiðiskipið Venus NS er nú í heimahöfn á Vopnafirði en þangað kom skipið í nótt með um 600 tonn af makríl sem fara til vinnslu hjá uppsjávarfrystihúsi HB Granda á staðnum. Meðalstærðin á makrílnum er 420-440 grömm og þetta er því stór og góður fiskur.

Að sögn Kristjáns Þorvarðarsonar skipstjóra þarf enn að hafa nokkuð fyrir því að leita að makríl í veiðanlegu magni en hann segir greinilegt að makríllinn sé að ganga upp á grunnin fyrir sunnan land. Þess verði væntanlega skammt að bíða að hann þétti sig betur á gönguleið sinni austur og norður með Austfjörðum.

,,Við enduðum veiðiferðina í Háfadjúpi alveg vestur undir Vestmannaeyjum en sum Eyjaskipanna hafa farið enn sunnar og vestar. Svo virðist þó sem að besta veiðin núna sé austan við Kötlugrunn og það kemur heim og saman við þá tilfinningu okkar að fiskurinn sé á austurleið. Það er makríll í köntunum en það verður mun betra að eiga við hann uppi á grunnunum,“ segir Kristján í samtali við heimasíðu HB Granda gær, en þar segist segist eiga von á því að löndun ljúki í fyrramálið og vonandi komist skipið úr höfn fyrir hádegi.
 

 

Deila: