Makríll veiðist í Smugunni

Deila:

Það hefur svo sannarlega verið rólegt yfir makrílveiðunum að undanförnu. Skipin hafa leitað bæði fyrir vestan og austan land með litlum árangri. Börkur NK kom með makríl- og síldarfarm til Neskaupstaðar af Austfjarðamiðum sl. mánudag og Bjarni Ólafsson AK kom síðan með makríl að vestan á miðvikudag. Í gær landaði Vilhelm Þorsteinsson EA frystum makríl í frystigeymslur Síldarvinnslunnar samkvæmt frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Beitir NK leitaði austur af landinu í vikunni ásamt fleiri skipum. Þar varð lítið vart við makríl en hins vegar reyndist þar vera töluvert af síld. Hann kom til löndunar í Neskaupstað í gær með um 300 tonn af síld.

Síðustu dagana hafa makrílskipin stefnt í Smuguna og þar hefur verið nokkur veiði. Börkur hóf veiðar í Smugunni í morgun og Bjarni Ólafsson stefnir þangað hraðbyri.
Á myndinni er Bjarni Ólafsson AK að makrílveiðum. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

 

Deila: