Unnið allan sólarhringinn

Deila:

Mikið hefur verið að gera í uppsjávarvinnslu HB Granda á Vopnafirði eftir að makrílvertíð hófst fyrir alvöru og þar er nú unnið allan sólarhringinn.

,,Það er núna verið að vinna afla Venusar NS sem kom hingað með um 700 tonn af makríl. Víkingur AK var að koma til hafnar með um 450 tonn en veðrið við Suð-Austurland hefur ekki verið hagstætt síðustu daga,“ segir Magnús Róbertsson, vinnslustjóri HB Granda á staðnum í samtali við heimasíðu HB Granda. Að hans sögn er 500 til 700 tonn af makríl í veiðiferð mjög góður skammtur fyrir vinnsluna.

,,Makríllinn hefur verið mjög stór og góður og meðalvigtin er vel yfir 400 grömmum. Við höfum flakað makrílinn fyrir Evrópumarkað en stærsti makríllinn hefur farið heill í blásturfrystingu fyrir markað í Japan og víðar í Asíu. Afkastagetan, eins og við höfum verið að vinna makrílinn, er um 190 til 200 tonn af afurðum á sólarhring og svo lengi sem við höfum nóg af fiski verður unnið hér allan sólarhringinn,“ segir Magnús Róbertsson.

Sá háttur er hafður á í vinnslunni á Vopnafirði að starfsmenn vinna 12 daga í röð en síðan eiga þeir frí í fjóra daga.

Deila: