Góð veiði í allt sumar

Deila:

Frystitogarinn Höfrungur III AK er nú að veiðum á Vestfjarðamiðum eftir millilöndun í Reykjavík í byrjun vikunnar. Að sögn Haraldar Árnasonar skipstjóra hefur verið góð veiði í allt sumar en eðlilega taki veiðiferðirnar mið af því hvaða tegundir sé hagkvæmast að veiða hverju sinni.

,,Við vorum með um 420 tonna afla upp úr sjó í þessari millilöndun. Mest var um ýsu en við vorum einnig með töluvert af gullkarfa og þorski,“ segir Haraldur í samtali við heimasíðu HB Granda.

Veiðiferðin hófst 13. júlí sl. og segist Haraldur hafa farið beint á Látragrunn.

,,Við vorum að ýsuveiðum á Látragrunni í eina 12 daga. Aflinn var alveg þokkalegur. Það var dálítið um þorsk sem meðafla til að byrja með en annars fengum við bara ýsu. Frá Látragrunni héldum við svo norður eftir á Halann og svo á Strandagrunn en aflinn þar var aðallega karfi og þorskur. Við reyndum einnig fyrir okkur á þeim stað sem kallaður er Nætursalan og svo var reynt við grálúðu norður á svokölluðum Geirastöðum,“ segir Haraldur en hann segir grálúðuveiðina ekki hafa verið mikla.

,,Ég hef yfirleitt haft þann hátt á að taka hring í kringum landið ef það hefur ekki rekist á við önnur verkefni sem okkur er ætlað að sinna. Yfirleitt hafa þær ferðir verið farnar til að veiða grálúðu en nú sýnist mér netabátarnir vera á góðri leið með að þurrka upp líklegustu svæðin fyrir togarana úti fyrir Norðurlandi og Austfjörðum. Netin eru lögð á allt að 250 til 300 faðma dýpi, jafnvel dýpra, og þessi veiði hefur orðið til þess að það er ekki rými fyrir okkur.“

Haraldur segist áfram ætla að halda sig á ýsuslóð á Vestfjarðamiðum en hann segir marga bíða eftir því að ýsuhólf norður af Ströndum verði opnað fyrir veiðum 16. ágúst nk.

Deila: