Fundu 29.000 ára gamla sökkur

Deila:

Fornleifafræðingar í Suður-Kóreu uppgötvuðu fyrir skömmu sökkur sem eru tæplega tuttugu þúsund árum eldri en fyrri ummerki sem fundist hafa um veiðar með netum. Svo virðist sem mannfólk hafi beitt þróuðum aðferðum við fiskveiðar töluvert fyrr en áður var talið. Frá þessu er sagt á ruv.is

Sökkurnar fjórtán fundust við uppgröft í Maedun-helli í júní en hann er í Jeongseon-sýslu í austurhluta Suður-Kóreu.

Nú liggja fyrir niðurstöður C-14 aldursgreiningar sem benda til þess að sökkurnar séu um 29 þúsund ára gamlar en sökkur eru notaðar til að þyngja fiskinet.

Sökkurnar eru úr kalksteini og vega á milli 14 til 52 grömm og eru 3,7 til 5,6 sentímetrar að þvermáli. Búið var að skera í þær rákir svo hægt væri að binda þær við net, sem notuð voru til að veiða litla fiska á borð við vatnakarfa í grynningum.

Safnstjóri Yonsei háskólasafnsins, Han Chang-gyun, sagði við AFP-fréttastofuna að þessi merki fundur breyti skilningi vísindamanna á þróun fiskveiða. Fyrr hafi verið farið að stunda veiðar með netum en áður var talið og mannfólk verið duglegt við að veiða sér fisk til matar strax á síðfornsteinöld.

Elstu veiðarfæri sem áður höfðu fundist eru frá nýsteinöld, önglar úr skeljum snigla sem uppgötvuðust á japanskri eyju. Þeir eru um 23 þúsund ára gamlir.

Auk sakkanna fundu fornleifafræðingarnir í Maedun-helli steingerð bein fiska og annarra dýra, steinverkfæra og skeljar.

 

Deila: