Fiskistofustjóri fagnar drónum og myndavélum

Deila:

Fiskistofustjóri bindur miklar vonir við að heimild fáist til þess að nota eftirlitsmyndavélar um borð í fiskiskipum og í löndunarhöfnum. Einnig að heimilað verði að nota dróna við eftir við hafnir og á grunnslóð. Þetta segir hann í samtali við ruv.is

Samkvæmt frumvarpsdrögum sem Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hefur kynnt, er stefnt að því að auka eftirlit með veiðum og löndun. Í athugasemdum við frumvarpsdrögin segir að sjávarútvegur sé einn veigamesti og arðbærasti atvinnuvegur landsins sem nýtir auðlindir sjávar og ríkir almannahagsmunir standi þess að hægt sé að tryggja sjálfbærra og ábyrga nýtingu þeirra. Því sé mikilvægt að til staðar sé traust og skilvirkt regluverk og eftirlit sem taki á brotum gegn fiskveiðilöggjöfinni og hafi um leið ákveðinn fælingarmátt. Grundvallarregla íslenskrar fiskveiðilöggjafar sé að landa beri og vigta allan afla. Brottkast, röng aflaskráning og framhjálöndun séu meðal alvarlegustu brota gegn lögunum.

Í drögunum er gert ráð fyrir vöktunarkerfi með myndavélum í öllum höfnum þar sem fiski er landað og hjá öllum vinnslustöðvum sem hafa vigtunarleyfi. Slík kerfi, segir í athugasemdum,  séu þegar til staðar í mörgum höfnum, en fyrir aðrar hafnir er gert ráð fyrir að kostnaður verði á bilinu ein til tvær milljónir króna á höfn.

„Ég hef trú á því að það væri mikill styrkur af því að fá inn heimild til að beita myndavélum við eftirlit og í rauninni bindum við miklar vonir við þetta, við sjáum mörg tækifæri í svoleiðis breytingum,“ segir Eyþór Björnsson fiskistofustjóri.

Hann segir að þannig væri hægt að fylgjast með því að öll ílát undir afla sem hífð séu í landi fari á vogina. Þannig megi koma í veg fyrir að landað sé framhjá vigt.  Og með myndavélum um borð í skipum og bátum megi skoða aflasamsetninguna, stærð og tegundir og einnig bera saman við aflann hjá öðrum skipum og þannig taka á brottkasti. Slíkt eftirlit kemur inn á persónuvernd, en með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði sérstök lagaheimild um aðgang starfsmanna Fiskistofu að rafrænum vöktunarkerfum. Fiskistofustjóri telur að hægt sé að samræma eftirlitið og persónuverndina.

„Ég tel að hægt sé að samræma þetta. Og það að fá inn heimild í lög til þess að nota myndavélaeftirlit gerir þetta nú strax mun auðveldara. En síðan þarf auðvitað að útfæra þessar reglur í góðu samstarfi við Persónuvernd og að allt sé eftir þeirra leiðsögn og samþykkt af þeim.“

Samkvæmt frumvarpsdrögunum er einnig gert ráð fyrir að eftirlitsmönnum Fiskistofu verði heimilt að nota fjarstýrð loftför í eftirlitsstörfum sínum, það er að segja dróna. Eyþór segir að þar sé verið að horfa til framtíðar, nú þegar sé farið að nota dróna við að senda skyndibita og fleira.

„Danir hafa verið með tilraunaverkefni við að beita þessu. Það eru örugglega mörg tækifæri þarna, til dæmis að fljúga yfir löndunarhafnir eða út á grunnslóðina, það eru mörg tækifæri þarna. Þetta er svolítið óskrifað blað sem við þurfum að skrifa  í góðu samstarfi við Persónuvernd.“

Gert er ráð fyrir að lögin í heild taki gildi 1. janúar 2020. Fiskistofustjóri er vongóður.

„Já, ég bind miklar vonir við þetta og ég tel í því árferði sem ríkisstofnanir búa við, það er ekki að fjölga fólki, þá muni þetta í rauninni styrkja eftirlitið gríðarlega mikið.“

 

Deila: