Vilhelm með mestan makrílafla

Deila:

Veiðar á makríl ganga enn fremur hægt. Veiði stærri skipa hefur síðustu daga ýmist verið fyrir vestan land í átt að grænlensku lögsögunni eða austur í Síldarsmugunni. Grænlensk skip hafa verið að fá góðan afla sín megin miðlínunnar. Smábátarnir eru að vanda mest að veiða á Steingrímsfirði, við Snæfellsnes og Reykjanes.

Heildaraflinn er nú um 40.00 tonn. Leyfilegur heildarafli er 145.000 tonn og því óveidd um 105.000 tonn. Að venju eru svokölluð aflareynsluskip með mestan afla, enda sömuleiðis með megnið af kvótanum. Afli þeirra nú er orðinn 33.700 tonn, en kvóti þeirra er í heildina um 125.000 tonn. Fjögur skip voru í gær skráð með meira en 3.000 tonn. Vilhelm Þorsteinsson EA er með 3.500 tonn, Guðrún Þorkelsdóttir  SU með 3.200 tonn, Venus NS með 3.100 tonn og Börkur NK 3.000 tonn.

Aðeins tvö skip úr flokknum vinnsluskip hafa landað afla. Það eru Grindavíkurtogararnir Hrafn Sveinbjarnarson með 907 tonn og Gnúpur með 450 tonn, samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. Gnúpur var reyndar að landa í Grindavík í gær og sá afli hefur væntanlega ekki verið skráður enn. Svipaða sögu er vafalítið að segja um fleiri skip.

Ekkert skip án vinnslu hefur haldið til makrílveiða frekar en fyrri ár eftir að færsla aflaheimilda í makríl var gefin frjáls. Kvóti þeirra nú er 5.344 tonn og hafa 4.394 tonn þegar verið flutt yfir á önnur skip.

Smábátarnir eru nú komnir yfir 1.300 tonn. Fjórir þeirra eru skráðir með yfir 70 tonna afla. Aflahæst er Herja ST með 109,6 tonn. Þá kemur Júlli Páls SH með 83 tonn, Fjóla GK með 75 og Addi afi GK með 72 tonn.

 

Deila: