„Sjóorrusta“ á Ermasundi

Deila:

Breskir sjómenn segja farir sínar ekki sléttar af frönskum starfsbræðrum sínum á Ermarsundi. Þeir bresku segja Frakkana ausa fúkyrðum, grjóti og reyksprengjum á breska báta á hafsvæðinu samkvæmt frétt á ruv.is

Lætin urðu um 12 sjómílum undan ströndum Normandy, skammt frá Signuflóa. Þar eiga Bretar veiðiréttindi á hörpudisk, en Frakkar eru orðnir langþreyttir á veru þeirra á þessum slóðum og saka breska sjómenn um að ganga á skelfisksstofninn. Bretunum finnst orðið nóg um aðfarirnar, og óska eftir að stjórnvöld verndi þá. Alls fóru um 40 franskir bátar á veiðisvæðið í gær til að mótmæla því sem franskir sjómenn segja veiðiþjófnað Breta. Eftir einhver orðaskipti sauð upp úr og grjóti var kastað, hefur breska ríkisútvarpið eftir Dimitri Rogoff, yfirmanni sjómannafélags Normandy. Einhverjir bátanna urðu fyrir skemmdum, þar af fóru tveir breskir bátar til hafnar í Brixham með skemmdar rúður.

Ríkin hafa deilt lengi um veiðiheimild á svæðinu. Síðustu fimm árin hefur þó orðið nokkur þíða þegar Bretar hættu að senda stærri skip til veiða, í skiptum fyrir aukin réttindi. Samkomulagið er að Bretar fái að veiða hörpudisk allt árið um kring, en veiðar Frakka takmarkast við tímabilið frá 1. október til 15. maí. Nú þykir Frökkum nóg komið og vilja þeir að Bretar lúti sömu skilmálum og Frakkar að sögn Rogoffs. Breskir sjómenn segjast hins vegar ekki vera að gera neitt ólöglegt, og óska eftir aðstoð stjórnvalda ætli Frakkar að halda mótmælum sínum til streitu.

 

Deila: