Undirbúningur jafnlaunavottunar gengur vel

Deila:

Hjá Síldarvinnslunni stendur nú yfir undirbúningur jafnlaunavottunar en slíka vottun eiga öll fyrirtæki með 250 starfsmenn eða fleiri að hafa hlotið fyrir lok þessa árs. Undirbúningsvinnan felst í því að aðlaga launakerfi fyrirtækisins að staðli um jafnlaunakerfi (ÍST 85) og er sú vinna allumfangsmikil. Meðal annars þarf að greina öll störf hjá fyrirtækinu, tryggja að viðmið sem ákvarða laun séu skýr og að allir ferlar og verklagsreglur um launaákvarðanir séu í samræmi við staðalinn.

Í byrjun októbermánaðar mun fyrirtækið BSI hefja úttekt á Síldarvinnslunni en BSI er leiðandi á sviði jafnlaunaúttekta. Þá mun fullnaðarúttekt á Síldarvinnslunni fara fram í nóvembermánuði. Að loknu þessu ferli mun Síldarvinnslan fá jafnlaunavottun en henni þarf síðan að viðhalda með reglubundnum úttektum. Jafnlaunavottunin staðfestir að engan óútskýrðan launamun kynjanna sé að finna hjá fyrirtækinu.

Að sögn Hákonar Ernusonar starfsmannastjóra fylgir vottuninni talsverð vinna og kostnaður en ótvíræður ávinningur sé fólginn í því að fara í gegnum vottunarferlið. „Þetta mun einfaldlega skerpa á öllu verklagi varðandi launamálin hjá fyrirtækinu. Undirbúningur jafnlaunavottunarinnar gengur vel hjá okkur og ég býst við að við ljúkum ferlinu tímanlega,“ segir Hákon.

 

Deila: