Hlýrinn kominn í kvóta

Deila:

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út reglugerð um kvótasetningu á hlýra. Leyfilegur heildarafli fiskveiðiárið 2018/2019 í hlýra er 1.001 tonn. Til bráðabirgða er úthlutað heimildum til 386 skipa á grunni aflareynslu þeirra.

Samkvæmt bráðabirgða úthlutuninni er ljóst að línuskip eru þar efst á lista, en lítið kemur í hlut hvers og eins. Skip sem fá meiri úthlutun en 20 tonn, eru tvö af Snæfellsnesi en sex úr Grindavík. Þessi skip eru: Tjaldur SH með 36,2 tonn, Sighvatur GK með 33,8 tonn, Valdimar GK með 32,6 tonn, Hrafn GHK 29,7 tonn, Sturla GK með 28,7 tonn, Jóhanna Gísladóttir með 27,9 tonn, Páll Jónsson GK með 22,6 og Rifsnes SH með 21 tonn.

Útgerðarmenn hafa frest til 1. október 2018 til að koma á framfæri við Fiskistofu athugasemdum varðandi aflatölur sem liggja til grundvallar aflahlutdeild. Einnig er hægt að óska eftir að tillit sé tekið til tilfærslu á viðmiðun aflareynslu í samræmi við 3. mgr. 9 gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða með síðari breytingum fyrir sömu tímamörk.

 

Deila: