Stór og gullfalleg síld
Síldveiðin fer vel af stað austur af landinu og vinnsla gengur vel í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað þar sem síldin er flökuð og fryst. Uppúr hádegi í gær kom Börkur NK með 1.200 tonn af síld til vinnslu.
Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri segir að þetta sé stór og gullfalleg síld. „Við fengum aflann í fjórum holum við og utan við Glettinganestotuna. Þarna var svolítið líf og við toguðum aldrei lengi eða frá tveimur og hálfum og upp í fimm tíma. Það má segja að síldveiðin hafi farið vel af stað og síldin er afar heppileg til vinnslu. Þetta er yfir 400 gramma síld,“ segir Hjörvar í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í morgun og er þetta önnur veiðiferð hans á síldarmiðin austur af landinu. Aflinn er 680 tonn og verður væntanlega byrjað að vinna hann á morgun.
Beitir NK mun halda til síldveiða síðar í dag.
Á myndinni er Börkur NK. Ljósm. Helgi Freyr Ólason