Heilir á húfi eftir eld um borð í Frosta ÞH

Deila:

Eldur kviknaði um borð í togskiptinu Frosta ÞH229 laust eftir klukkan þrjú í dag. Landhelgisgæslunni barst tilkynning um þetta klukkan 15:18. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út og varðskipið Týr, sem var statt í Ísafjarðardjúpi.

Tólf eru í áhöfn Frosta og kom fram að allir væru heilir á húfi en hugsanlegt að einn skipverji væri með reykeitrun.

Björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Gunnar Friðriksson, var einnig beðið um að halda rakleiðis á vettvang auk skipa í grenndinni. Togskipið var þá statt um 45 sjómílur vest-norðvestur af Straumnesi.

Stundarfjórðungi eftir að neyðarkallið barst frá Frosta barst stjórnstöðinni tilkynning um að búið væri að einangra eldinn í vélarrúminu en reykur væri um allt skip, nema í brú þess. TF-GNA, þyrla Landhelgisgæslunnar, hélt beint á staðinn og var áætlað að hún yrði komin að Frosta um klukkan 17:25. Hin þyrlan, TF-SYN, flaug vestur með fimm slökkviliðsmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og er gert ráð fyrir að hún verði komin að Frosta klukkan 18:00. Þá er áætlað að varðskipið Týr verði komið að skipinu laust fyrir klukkan 19:00.

Klukkan 15:47 var togarinn Sirrý ÍS36 kominn að Frosta og var gert ráð fyrir að hann tæki Frosta í tog. Allar líkur eru á að TF-GNA flytji einn skipverja frá borði og fari með hann á Ísafjörð til aðhlynningar. „Gott veður er á svæðinu og munu skipin halda áleiðis í land en aðrar bjargir halda sínu striki,“ eins og segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Þá segir að slökkviliðsmennirnir sem koma með TF-SYN muni kanna hvort eldurinn lifi enn í vélarrýminu.
Ljósmynd Þorgeir Baldursson.

 

Deila: