Annir í frystigeymslunum

Deila:

Það hefur verið nóg að gera hjá starfsmönnum frystigeymsla Síldarvinnslunnar í Neskaupstað að undanförnu. Á makrílvertíðinni hafa frystigeymslurnar tekið á móti um 20.000 tonnum og kemur makríllinn frá fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og frystiskipunum Vilhelm Þorsteinssyni EA og Hákoni EA. Tekið hefur verið á móti um 4.500 tonnum frá Vilhelm og um 3.500 tonnum frá Hákoni. Þá hefur einnig verið unnin grálúða í fiskiðjuverinu og eins hefur gengið vel að frysta þar norsk-íslenska síld frá því að veiðar á henni hófust.

Nú hefur Vilhelm Þorsteinsson hafið síldveiðar og landaði 580 tonnum af síldarflökum á sunnudag en í gær var Hákon að landa rúmlega 500 tonnum af makríl.

Heimir Ásgeirsson, verkstjóri í frystigeymslunum, segir að miklar annir hafi verið hjá starfsmönnum frystigeymslnanna síðustu mánuði. „Við erum að senda frá okkur 500-600 tonn í gámum í hverri einustu viku en gámarnir fara í skip á Reyðarfirði. Þá koma flutningaskip nokkuð reglulega og lesta frystar afurðir. Það er til dæmis væntanlegt skip í þessari viku sem mun taka um 2.500 tonn af síld og makríl hjá okkur,“ segir Heimir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Myndin er frá Norðfjarðarhöfn í gærmorgun. Vilhelm Þorsteinsson EA heldur til veiða að lokinni löndun. Fjærst erHákon EA að landa frystum makríl. Börkur NK
er að landa síld til frystingar. Ljósm. Smári Geirsson

 

Deila: