Tók fyrst saman við Vinnslustöðina, svo við eiginkonuna!
„Það styttist í að ég flytji mig yfir á Ísleif. Auðvitað er ég spenntur en fyrst og fremst eru forréttindi að vinna við eitthvað sem er jafnframt helsta áhugamálið.“ Magnús Jónasson var að hefja vakt í brúnni á Kap á miðnætti síðasta föstudag, þegar heimasíða Vinnslustöðvarinnar náði sambandi við hann. Skipið nálgaðist þá Norðfjarðardýpi á leið til Vestmannaeyja með 650 tonn af síld.
„Demantssíld, herramannsmatur. Mikil synd að þeim fækki stöðugt hér á landi sem borða síld. Eins og þetta er nú góður matur.“ segir Magnús – betur þekktur í Eyjum sem Maggi á Sighvati.
Algjörlega rökrétt og eðlilegt að maðurinn hafi um árabil verið kenndur við Sighvat Bjarnason VE því hann var þar í áhöfn frá 1981 til 2015, hvorki meira né minna. Stýrimaður en leysti af sem skipstjóri.
Nú er hann stýrimaður á Kap VE og leysir af Jón Atla Gunnarsson skipstjóra. Innan tíðar verður hann skipstjóri á Ísleifi VE á móti Eyjólfi Guðjónssyni, ráðinn til að fylla í skarðið sem Helgi Geir Valdimarsson skildi eftir sig þar í brúnni.
Maggi á Sighvati/Kap og bráðum Ísleifi er Þingeyingur að uppruna, frá Þórshöfn á Langanesi. Hann fór á sínum tíma til Vestmannaeyja til að ljúka stýrimannaskólanum og er þar enn. Eftir skóla réði hann sig til Vinnslustöðvarinnar og hefur verið til sjós á skipum félagsins áratugum saman.
„Ég tók fyrst saman við Vinnslustöðina, svo við eiginkonuna. Það er fínt að vinna hjá hjá þessu fyrirtæki, reyndar alveg óaðfinnanlegt. Ég tel mig vera Þingeying og Eyjamann í bland. Samfélagið í Vestmannaeyjum er til fyrirmyndar. Þar er gott að búa og ég mæli með því! Þú ættir að prófa það sjálfur, vinur minn.“