Mokveiði á síldinni

Deila:

Um nýliðna helgi var vinnsluhlé í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Vinnsla hófst á ný í á mánudagsmorgun en þá var Börkur NK  kominn með 1.340 tonn af fallegri síld. Vel hefur gengið að vinna aflann úr Berki, en hann er bæði flakaður og heilfrystur segir í frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Klukkan fjögur á sunnudag hélt Beitir NK til síldveiða og kom hann inn snemma í gærmorgun með 1.225 tonn. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti segir að það hafi verið mokveiði. „Við fengum aflann í þremur stuttum holum. Stærsta holið var 690 tonn og þá var dregið í tvo og hálfan tíma. Aflinn fékkst austur og norðaustur úr svonefndum Hornfláka, eða um það bil 35 sjómílur frá Norðfjarðarhorni. Þarna var mjög mikið að sjá og lóðningarnar voru rosalega flottar. Veiðin var náttúrulega frábær því aflann fengum við á sextán klukkutímum. Byrjuðum að veiða um klukkan níu á sunnudagskvöld og vorum hættir veiðum um hádegi í gær. Það er vart hægt að hugsa sér það mikið betra. Mönnum hlýtur að lítast vel á framhald þessara veiða, það er ekki hægt annað,“ segir Tómas.

 

Deila: