Tóku ufsaskammtinn á Fjöllunum

Deila:

,,Það var dýrvitlaust veður á Vestfjarðamiðum þegar við fórum út og því ákvað ég að byrja túrinn á heimamiðum. Við fórum á Fjöllin suðvestur af Reykjanesi og fengum þar karfa og ufsa. Þótt við höfum staldrað stutt við þá náðum við ufsaskammtinum fyrir vinnsluna. Það vantar eitthvað upp á karfaveiðina en það er ekkert sem ekki er hægt að bjarga á Vestfjarðamiðum.”

Þetta sagði Friðleifur Einarsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Engey RE, er rætt var við hann sl. föstudag á heimasíðu HB Granda, en Engey var þá komin langleiðina í kantinn sunnan við Halamið.

,,Ég býst við því að veiðar geti hafist að nýju nú síðdegis. Við byrjum í kantinum og vinnum okkur svo norður og austur eftir. Aflabrögðin í kantinum og á Halanum ráða svo miklu um framhaldið. Ég hef þó alla trú á að hægt verði að fá nægan karfaafla í Víkurálnum á bakaleiðinni,” segir Friðleifur Einarsson.

Er rætt var við skipstjórann var enn hálfleiðinlegt veður á Vestfjarðamiðum, 13 til 15 metrar á sekúndu og töluverður sjór, en Friðleifur segir veðrið vera að ganga niður. Svo slæmt var veðrið á dögunum að skipin þurftu að leita vars á meðan það versta gekk yfir.

Deila: