„Álagning veiðigjalds brennur á okkur“

Deila:

Axel Helgason, formaður Landssambands smábátaeigenda, segir að veiðigjald eins og það er í framkvæmd nú taki ekki tillit til afkomu einstakra útgerðarhópa eins og smábáta. Afkoma þeirra við þorskveiðar sé mun lakari en afkoma stærri báta, en ekkert tillit sé tekið til þess við álagningu gjaldsins. Jafnframt bendir hann á að veiðar smábáta skili hlutfallslega meiru til hins opinbera í formi tekjuskatts en stærri útgerðirnar. „Álagning veiðigjalds brennur á okkar mönnum,“ sagði Axel í setningarræðu sinni á aðalfundi landssambandsins.

„Ríkisstjórnin var gerð afturreka með frumvarp um veiðigjöld nú í vor. Með frumvarpinu var viðurkennt að um oftöku væri að ræða og gerði það ráð fyrir endurgreiðslu á hluta af því sem oftekið var. En vegna pólitísks afleiks náðist ekki að setja frumvarpið á dagskrá eftir að þing kom saman eftir sveitarstjórnarkosningarnar og því fór sem fór og röng álagning sem átti að taka enda um síðustu fiskveiðiáramót var framlengd óbreytt til áramóta.

Nú er komið nýtt frumvarp og í því eru gerðar nokkrar breytingar á hvernig veiðigjaldið er reiknað, en þær taka ekki gildi fyrr en árið 2020. Þangað til er búið að fastsetja ígildi tegundanna sem um ræðir og þar með hvaða veiðigjald hver tegund ber. En afkoma veiða 2016 er sá álagningargrunnur sem byggt er á.

Stjórnmálamenn tala um að veiðigjald sé aðgangsgjald að því sem okkur er úthlutað og sumir þeirra benda á að færa þurfi rök fyrir mismunun í álagningu gjaldsins. Álagningin er reiknuð út frá afkomu allra útgerðarflokka þar sem forsendur og rekstrarskilyrði eru afar misjöfn.

Hreinn hagnaður sem hlutfall af tekjum hjá 876 smábátum 2016 var 3,2% en hjá hinum 5 útgerðarflokkunum var þetta hlutfall rúm 24%.

Mikið skortir á innsýn í sjávarútveg

Augljóst er mikið skortir á innsýn í sjávarútveg hjá þeim sem fjalla um þessi mál á sviði stjórnmálanna. Afkoman ein og sér segir ekki allt um það sem skilar sér til samfélagsins í formi skatta og samfélagsáhrifa.

Úr hagi veiða og vinnslu sem Hagstofan gefur út er hægt að sjá hvaða aflaverðmæti hver útgerðarflokkur skilar í hverri tegund. Þessar tölur eru unnar úr vigtar- og ráðstöfunarskýrslum og gefa tækifæri á að reikna t.d hvað skilar sér í formi tekjuskatts af aflahlutum samkvæmt lágmarkstaxta í kjarasamningum. En tekjuskattur af aflahlut sjómanna er í raun stærsta tekjulind þjóðarinnar af auðlindinni.

Meðalverð á þorski landað af smábátum 2016 var 245 krónur, en á ísfisktogara var verðið 182 krónur. Þarna skilar sér til ríkisins, í formi staðgreiðslu, 24 krónur á hvert kíló frá smábátunum en á ísfisktogaranum eru þetta rúmar 18 krónur.  Ofan á þetta bætast síðan önnur launatengd gjöld auk aflagjalds í sama hlutfalli og staðgreiðslan.

Og „ebitan“ sem hefur verið notuð hingað til inniheldur að hluta til það sem mætti kalla huglæga afkomu, þar sem gengismunur og aðrir liðir, sem ekki koma inn í neinu formi sem fé í rekstur, er notað til álagningar á okkur,“ sagði Axel.

 

Deila: