Aukinn fiskafli smábáta

Deila:

Afli smábáta jókst um tæp þúsund tonn milli fiskveiðiára og varð 85.586 tonn á nýliðnu fiskveiðiári. Alls veiddu smábátaeigendur um 58 þúsund tonn af þorski sem jafngildir 23% af því sem veitt var í íslenskri lögsögu. Þetta kom fram í skýrslu Arnar Pálssonar framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda á aðalfundi sambandsins í gær.

Hlutdeild smábáta í heildarafla ýsu var enn meiri eða 23,4% – 9.616 tonn.  Trillukarlar veiddu 4.647 tonn af steinbít sem jafngildir 52,6% hlutdeild.

„Til að enda þessa talnarunu er rétt að geta þess að heildaraflaverðmæti smábáta fiskveiðiárið 2016/2017 varð 19,2 milljarður, hækkar um 1,2 milljarða milli ára. Þá tölu er hægt að tvöfalda þegar litið er til útflutningsverðmæta sem skilar því um 38,4 milljörðum,“ sagði Örn.

Örn ræddi einnig um strandveiðarnar og það nýja fyrirkomulag sem á þeim var tekið upp í ár: „Á aðalfundum svæðisfélaganna komu fram margar ástæður fyrir því að færri stunduðu veiðarnar en í fyrra.  Fiskverð, hagstætt leiguverð, grásleppa á sama tíma og undirliggjandi ótti við að veiðar yrðu stöðvaðar áður en tímabilið væri á enda.  Að loknu tímabilinu ríkti jákvæðni með þær breytingar sem gerðar voru á strandveiðikerfinu.

Nú eru strandveiðar orðnar alvöru atvinnugrein og ber stjórnvöldum því að umgangast þær sem slíkar. Hinar dreifðu byggðir reiða sig á þær, fiskmarkaðir og vinnslu- og söluaðilar.  Svo ekki sé talað um alla þá þjónustuaðila sem byggja á veiðunum.

Þannig að strandveiðar komist yfir haftaþröskuldinn verður að tryggja að afkoma af veiðunum geti skilað ásættanlegum launum og staðið undir kostnaði sem til fellur við þær ásamt viðhaldi báts.

Þegar skoðanir strandveiðimanna eru teknar saman er megin krafan sú að tryggt verði að veiðidagar í hverjum mánuði verði aldrei færri en 12. Heimilt verði að nýta þá á tímabilinu 1. apríl – 30. september, jafnskipt á 4 samfellda mánuði. Væntanlega mun þetta þýða meiri afla, en það verður að gera tilraunina þannig að menn fái vitneskju um hvort beina brautin sé þessi.“

Deila: