Auknar rekstrartekjur í fiskeldi
Rekstrartekjur fyrirtækja í fiskeldi jukust um 34% á árinu 2017, en þær jukust einnig mikið árið áður. Rekstrartekjur í fiskeldi hafa rúmlega tvöfaldast frá árinu 2015. Viðsnúningur hefur því orðið í greininni en hagnaður fyrir fjármagnsliði jókst um rúmlega 2,6 milljarða frá árinu áður og var 900 milljónir en tapið nam 1,7 milljörðum árið áður. Eigið fé hefur aukist um 28% frá fyrra ári, var 22 milljarðar í fyrra, og eiginfjárhlutfall yfir 50%.
Þetta kemur fram í úttekt Hagstofunnar á viðskiptahagkerfinu árið 2017. Í viðskiptahagkerfinu er allur fyrirtækjarekstur á Íslandi fyrir utan lyfjaframleiðslu, fjármála- og vátryggingarstarfsemi og opinbera starfsemi. Greint er frá þessu á heimasíðu Samtaka fiskeldisstöðva.
Talsverðar breytingar á framleiðslunni
Talsverðar breytingar verða á útflutningstölum fiskeldis árið 2018 í samnburði við árið 2017. Framleiðsla á regnbogasilungi mun dragast saman í ár en búast má við að hann aukist að nýju. Fyrirtækið Hábrún á ísafirði hefur fengið aukin leyfi til framleiðslu á regnbogasilungi. Bleikjuframleiðsla eykst. Samherji sem er stærsti bleikjuframleiðandi í heimi hefur aukið framleiðslu sína og tók nýverið í notkun nýja sérhannaða vinnslu fyrir bleikjuafurðir sem er staðsett í Sandgerði. Í fyrra var útflutningur á laxi á höndum tveggja fyrirtækja, Arnarlax og Samherja. Fiskeldi Austfjarða hóf slátrun og útflutning í byrjun þessa árs.. Síðar á þessu ári byrjar slátrun og útflutningur tveggja fyrirtækja, Laxa ehf á Reyðarfirði og Arctic fish í Ísafjarðarkaupstað.
Aukning framundan og verð talið haldast gott
Ljóst er því að aukning verður á útflutningi á laxi á næsta ári og sömuleiðis á árinu 2020. Eins og greint hefur verið frá á þessari síðu er því spáð að verð á laxi og regnbogasilungi muni haldast almennt gott á komandi árum og verða um og yfir 900 krónur á kíló miðað við núverandi gengi.