Polar Amaroq að kolmunnaveiðum á gráa svæðinu

Deila:

Grænlenska skipið Polar Amaroq er að kolmunnaveiðum á hinu svonefnda gráa svæði á milli Skotlands og Færeyja. Heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn til Geirs Zoëga skipstjóra í gærkvöldi og spurði um aflabrögðin.

Geir Zoega

„Það er fiskur hérna en veiðin hefur verið misjöfn ekki síst vegna veðurs. Við erum komnir með rúmlega 1.000 tonn í fjórum holum. Við fengum 450 tonn í fyrsta holinu en svo komu tvö bræluhol sem gáfu ekki mikið. Við fengum síðan 300 tonn í síðasta holi og mér sýnist að veðurútlit sé gott næsta sólarhringinn eða svo. Við erum beint suður af Færeyjum og hér eru auk okkar til dæmis Rússar, Hollendingar, Norðmenn og Færeyingar, en engir Íslendingar og það er svolítið sérstakt. Mér skilst að lítið sé að gerast í samningamálum Íslendinga og Færeyinga um gagnkvæm veiðiréttindi. Ég er ágætlega bjartsýnn hvað veiðihorfur í kolmunnanum varðar. Það er einna helst að veður geti sett strik í reikninginn, en það er ekki alltaf blíðan á þessum slóðum í janúar,“ segir Geir Zoëga.

Hið umrædda gráa svæði er hafsvæði á milli Færeyja og norðurstrandar Skotlands sem þjóðirnar deildu lengi um. Hinn 18. maí árið 1999 náðist hins vegar samkomulag þar sem landgrunninu undir hafsvæðinu var skipt samkvæmt breskri skilgreiningu á miðlínu sem þýddi í reynd að landgrunnsréttindin voru að mestu í höndum Breta. Hins vegar gerði samningurinn ráð fyrir að Færeyingar og Bretar hefðu jafnan fiskveiðirétt á svæðinu. Kolmunninn gengur um þetta svæði snemma árs og síðan aftur á vorin.

 

Deila: