Aukið aflaverðmæti á höfuðborgarsvæðinu

Deila:

Verðmæti landaðs afla í október á síðasta ári var 12 milljarðar króna. Það er aukning um 9%, sem aðallega stafar af meira verðmæti landaðs botnfisks en í sama mánuði árið 2017. Eins og oftast nær kemur verðmætasti aflinn á land á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og mánuðina þar á undan eru nokkuð miklar sveiflur í verðmæti landaðs afla milli landshluta. Þær stafa ýmist af minni afla í heildina séð eða samdrátt í mikilvægum tegundum fyrir einstaka landshluta. Fiskverð ræður auðvitað einnig miklu og í þeim landshlutum, þar sem heildarverðmæti er frekar lágt, getur til dæmis ein löndun frystitogara breytt miklu eftir því hvoru megin mánaðamóta hún lendir.

Í október síðastliðnum var verðmæti landaðs afla á höfuðborgarsvæðinu 3,3 milljarðar króna, sem er aukning um tæp 40%. Verðmæti landaðs afla á Suðurnesjum var 2,2 milljarðar sem er vöxtur um 13%. Á Austurland var verðmæti landaðs afla 1,9 milljarðar, sem er um 2% vöxtur og verðmætið var sömuleiðis 1,9 milljarðar á Norðurlandi eystra, en þar var samdráttur um 0,4%.

Þessi haldshlutar skera sig nokkuð úr hvað verðmæti landaðs afla varðar og er það eingöngu vegna minni aflaheimilda hinna landshlutanna. Annars verður að hafa í huga að skipin stunda yfirleitt veiðar þar sem fiskurinn gefur sig best á hverjum tíma. Það getur verið langt frá heimahöfn þeirra og því er landað í næstu höfn. Sem dæmi má taka að Akureyrartogarar landa oft fyrir austan og línubátarnir af Suðurnesjum oft á Norðurlandi vestra, þegar þannig stendur á.

Verðmæti landaðs afla á Suðurlandi var 605 milljónir sem er samdráttur um 35%. Næst koma Vestfirðir með 591 milljón, sem er samdráttur um 12%. Þá kemur Vesturland með 529 milljónir og fall um 12% og loks Norðurland vestra með 374 milljónir og lækkun um 20%

Deila: