Ísfisktogararnir fiska vel

Deila:

Góður afli hefur að undanförnu verið hjá ísfisktogurunum Gullver NS, Vestmannaey VE og Bergey VE. Gullver landaði síðast fullfermi á Seyðisfirði 4. febrúar og var ýsa uppistaða aflans. Vestmannaey landaði fullfermi í Neskaupstað 3. febrúar og var aflinn mestmegnis ýsa. Síðan landar Vestmannaey í dag í Vestmannaeyjum og er aflinn um 60 tonn, mest þorskur og ýsa. Bergey landaði fullfermi á Eskifirði 31. janúar og var aflinn að mestu ýsa. Aftur landaði Bergey fullfermi í Vestmannaeyjum 4. febrúar og enn og aftur var ýsa uppistaða aflans. Þá landaði skipið í Eyjum á ný  5. febrúar, aflinn var 40 tonn, mest ufsi og þorskur.

Heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn um borð í Vestmannaey og ræddi við Hilmar Stefánsson skipstjóra. Hilmar sagði að fiskiríið að undanförnu hefði verið mjög gott og nú væri sjálf vertíðin framundan. „Við höfum verið fyrir austan síðustu dagana, fyrst í Berufjarðarálnum og síðan í Hvalbakshallinu, og þar hefur verið mjög góð ýsuveiði. Þetta er stór og fallegur fiskur sem þarna fæst. Við erum á leið til Eyja og munum landa þar á morgun. Hann spáir norðanáttum næstu daga eða fram á sunnudag og ég reikna með að eftir löndun verði veitt við Eyjarnar. Bergey var að fá fínan afla í fyrradag suður af Eyjum og það er farið að líða að vertíð, þetta er allt að koma – það er kominn tími á vertíðina og hún er ávallt tilhlökkunarefni,“ segir Hilmar.
Ljósmynd: Guðmundur Alfreðsson.

 

Deila: