Kolmunna landað fyrir austan

Deila:

Um helgina lönduðu þrjú kolmunnaskip afla í fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Beitir NK kom fyrstur aðfaranótt föstudagsins og landaði 2.750 tonnum í Neskaupstað. Margrét EA kom í kjölfar hans til Neskaupstaðar aðfaranótt sunnudagsins með 1.850 tonn og Bjarni Ólafsson AK kom til Seyðisfjarðar skömmu síðar með um 1.800 tonn.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi stuttlega við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti og spurði hann hvernig veiðiferðin hefði gengið. „Veiðiferðin gekk í sjálfu sér vel þegar við gátum verið að. Við fengum aflann í tíu holum en veðrið var afskaplega leiðinlegt og gerði okkur erfitt fyrir. Það var nægur fiskur þarna á miðunum vestur af Írlandi en það virðist þó vera enn meiri fiskur innan línunnar þar sem við getum ekki veitt. Fiskurinn gengur þarna út úr lögsögunni og síðan inn í hana aftur og við verðum að taka hann á meðan hann er utan línunnar. Holin hjá okkur gáfu misjafnan afla en í síðasta holinu fengum við 470 tonn eftir að hafa einungis dregið í nokkrar mínútur. Það var veisla. Þó nokkur fjöldi skipa er að veiðum innan línunnar og eru það helst Danir, Norðmenn og Hollendingar. Einhverntímann í marsmánuði fer kolmunninn að ganga norður eftir og heldur sig þá mikið innan færeyskrar lögsögu. Við erum bjartsýnir á að unnt verði að fara þó nokkra túra á miðin þarna vestur af Írlandi áður en hann fer að ganga norður eftir fyrir alvöru. Það er verst hve langt er á þessi mið en þegar við lögðum af stað til löndunar voru 618 mílur heim,“ segir Tómas.

Börkur NK var í gær á landleið af kolmunnamiðunum með 2.200 tonn og mun löndun úr honum væntanlega hefjast um hádegisbil í dag.

Deila: