Seðlabankinn hugsanlega skaðabótaskyldur

Deila:

Bankaráð Seðlabanka Íslands telur að Seðlabankanum hafi ekki tekist að sýna fram á nauðsyn þess að leggja stjórnvaldssekt á Samherja með vísan til ákvarðana í svokölluðum sambærilegum málum.

Þetta kemur fram í greinargerð sem bankaráðið vann að beiðni Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Eins og fram hefur komið dæmdi Hæstiréttur Íslands að Seðlabankanum hefði verið óheimilt að leggja 15 milljóna króna stjórnvaldssekt á Samherja árið 2016. Bankinn hefur sagt að sú ákvörðun hafi verið óhjákvæmileg með vísan til jafnræðissjónarmiða vegna annarra sambærilegra mála, sem áður hafði verið lokið með stjórnvaldssekt. Frá þessu er greint á ruv.is

Bankaráðið segir að frá efnahagslegu tilliti virðist hafa tekist nokkuð vel með höftin. Hins vegar hafi ekki tekist jafnvel til með framfylgd og setningu haftanna að ýmsu öðru leyti. Sérstaklega vekur athygli að málarekstri og kærum Seðlabanka og þar áður Fjármálaeftirlitsins vegna meintra brota á höftunum hafi nánast að öllu leyti verið hafnað af dómstólum eða saksóknurum. „Þá hefur þeim stjórnvaldssektum sem bankinn hefur lagt á í mörgum tilfellum verið hnekkt af dómstólum þegar á þær hefur verið látið reyna. Þetta hefur átt sér ýmsar skýringar. Þær refsiheimildir sem bankinn hefur reynt að byggja á hafa í nokkrum tilfellum ekki staðist skoðun þegar á þær hefur reynt eins og reifað er hér að framan. Á því ber þó ekki bankinn einn ábyrgð. Þáhefur stjórnsýsla bankans ítengslum við gjaldeyriseftirlit sætt harðri gagnrýni,“ segir í greinargerðinni.

Bankaráðið segir að það sé erfið reynsla hvort heldur fyrir einstaklinga eða forsvarsmenn fyrirtækja að verjast þungum ásökunum eftirlitsstofnunar eins og Seðlabankans jafnvel þótt þeim takist að hnekkja málatilbúnaði stofnunarinnar á endanum. „Þeir sem borið hafa kostnað eða tjón vegna mistaka í stjórnsýslu Seðlabankans kunna að eiga rétt á skaðabótum úr hendi Seðlabankans,“ segir í greinargerðinni.

 

Deila: