Framleiðsla tæknibúnaðar meiri en útflutningsverðmæti þorskflaka

Deila:

Ný greining Íslenska sjávarklasans á stöðu tæknifyrirtækja, sem tengjast sjávarútvegi, sýnir að staða margra þeirra hefur aldrei verið jafn sterk og nú. Tíu stærstu fyrirtækin juku veltu sína umtalsvert á milli áranna og nam velta þeirra á árinu 2018 um 42 milljörðum króna (aðeins sú velta sem tengist sjávarútvegi og fiskeldi). Veltuaukningin var tilkomin bæði með sölu búnaðar sem og samruna við önnur fyrirtæki.

Velta annarra fyrirtækja, sem eru samkvæmt athugun Sjávarklasans um 65 talsins, var um 40 milljarðar og óx um 7% á árinu 2018. Árið 2018 má því segja að sé fyrsta árið í sögunni þar sem sala tæknibúnaðar og annars búnaðar frá íslenskum fyrirtækjum, sem mestmegnis er á erlenda markaði, er meiri en sem nemur sölu á þorskflökum frá Íslandi.

„Fleiri tæknifyrirtæki eru að stækka umtalsvert og ná öflugri fótfestu á erlendum mörkuðum. Þrátt fyrir harða samkeppni hafa mörg minni fyrirtækin haldið vel sínum hlut og í sumum tilfellum vel það. Í fáum útflutningsgreinum, eins og þeirri sem hér er til skoðunar, hafa fyrirtækin nýtt jafn vel þau tækifæri sem felast í fjórðu iðnbyltingunni. Þá eru að koma fram ný tæknifyrirtæki, m.a. í rekjanleika, DNA greiningum og umhverfisstjórnun sem enn bæta þá fjölbreyttu flóru tæknifyrirtækja sem starfrækt eru á þessu sviði hérlendis. Eins og áður hefur óvissa innanlands, loðnubrestur, verkföll og önnur óáran, áhrif á tæknifyrirtækin en þó misjafnlega mikið,“ segir í frétt frá Sjávarklasanum.

Greininguna má sjá í heild á slóðinni http://www.sjavarklasinn.is/wp-content/uploads/2019/04/Sta%C3%B0a-t%C3%A6knifyrirt%C3%A6kja-2019.pdf

Deila: