Nýja Vestmannaey komin út úr húsi
Hin nýja Vestmannaey var tekin út úr húsi í morgun, máluð og fín. Skipið er smíðað í skipasmíðastöð Vard í Aukra í Noregi. Notaður er vagn til að færa skipið út úr húsinu og mun hann flytja það út á pramma. Pramminn verður síðan dreginn út á fjörð og þar verður honum sökkt undan skipinu. Gert er ráð fyrir að Vestmannaey muni fljóta í fyrramálið.
Guðmundur Alfreðsson útgerðarstjóri Bergs-Hugins er í Aukra og fylgist grannt með. Hann segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, að mönnum lítist afar vel á Vestmannaey og brosi allan hringinn. Þá segir hann að gert sé ráð fyrir að vélar skipsins verði gangsettar 4. eða 5. maí.
Systurskip Vestmannaeyjar, Bergey, er einnig í smíðum í Aukra og er ráðgert að það verði sjósett í ágúst nk. Skipin eru tæplega 29 metrar að lengd og 12 metra breið og há. Sumir segja að þessi skip séu stór-lítil.
Myndir Guðmundur Alfreðsson.