Gæslan prófar dróna við eftirlit á sjó

Deila:

Mannlaus flugvél sem prófuð hefur verið á Egilsstaðaflugvelli hefur þegar nýst til eftirlits. Forstjóri Landhelgisgæslunnar telur líklegt að slík vél mun í framtíðinni taka við verkefnum af flugvél gæslunnar. Frá þessu er greint á ruv.is

TF-Sif lenti á Egilsstöðum í gær en með vélinni kom föruneyti Landhelgisgæslunnar og fleiri stofnana. Tilgangurinn var að skoða dróna af gerðinni Hermes 900 sem siglingaöryggisstofnun Evrópu hefur prófað undanfarnar tvær vikur. Prófanirnar standa í þrjá mánuði. „Við berum ábyrgð á gríðarstóru hafsvæði og umferð fer vaxandi í kringum Ísland. Þannig að við erum að leita allra leiða til þess að geta haft sem besta yfirsýn og eftirlit. Þannig að notin fyrir þetta eru sannarlega klár og skír. Þeir segja mér fulltrúar EMSA, Siglingaöryggisstofnunar Evrópusambandsins, að reynslan sé mjög góð. Þeir eru ánægðir og þykir þetta vera góð aðstaða til þess að prófa dróna við erfiðar aðstæður. Siglingaöryggisstofnun Evrópusambandsins getur komið verulega að málum í kringum Ísland eins og annars staðar,“ segir Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands.

Það er dýrt að nota flugvél til eftirlits og hefur gæslan þurft að leigja Sif frá sér. Hún hefur þó sannað gildi sitt og myndaði nýverið meint brottkast. Dróninn hefur einnig verið nýttur til að fylgjast með fiskveiðum og hvalaskoðunarbátum. Ekki liggur fyrir kostnaðarsamanburður á dróna og flugvél og gæslan hefur ekki yfirsýni yfir hvað myndi kosta að reka dróna sem þennan á Íslandi. Aðeins er um tilraunaverkefni að ræða og Evrópusambandið greiðir næstum allan kostnað. Þótt dróninn sé mannlaus þarf mannskap til að stýra honum. „Dróninn er ekki jafn öflugur og flugvélin. Ekki enn þá. Hann þolir minni hliðarvind bæði í flugtaki og lendingu og búnaðurinn er ekki jafn markviss og öruggur,“ segir Georg. Að spurður um hvort hann haldi að í framtíðinni gæti dróni komið í staðinn fyrir flugvélina segir hann. „Það er erfitt að segja en mér finnst það mjög líklegt. Við eigum eftir svona 10-15 ár á flugvélinni okkar og hvað gerist á þeim tíma er erfitt að spá um en það er ekki ólíklegt að þessi tækni muni taka yfir.“

 

Deila: