Kaupa nýtt björgunarskip
Slysavarnarfélagið Landsbjörg hefur fest kaup á nýju björgunarskipi sem á að leysa björgunarskipið Gunnar Friðriksson á Ísafirði af hólmi. Skipið er mun hraðskreiðara en Gunnar Friðriksson, kemst 25 sjómílur á klukkustund í stað 16-17 sjómílna sem kemur til með að stytta viðbragðstíma útkalla.
Nýtt skip eftir metár í útköllum
Á síðasta ári var metföldi útkalla hjá Gunnari Friðrikssyni, 25 útköll. Björgunarskipið sinnir bæði miðunum og sjúkraflutningum fyrir friðlandið á Hornströndum. Með nýju skipi má bæði stytta útköll og viðbragðstíma en áhöfn Gunnars Friðrikssonar hefur lent í því að skemmtiferðaskip sigldi fram úr björgunarskipinu á leið í útkall. Ganghraði sumra skemmtiferðaskipa er meiri en Gunnars Friðrikssonar. Nýja skipið er ekki aðeins hraðskreiðara heldur einnig búið dráttarkróki, krana, öflugum brunadælum sem og með betri aðstöðu fyrir sjúklinga og áhöfn en er um borð í Gunnari Friðrikssyni.
Risastökk í sjóbjörgum
Gauti Geirsson, formaður Björgunarbátasjóðs Slysvarnarfélagsins Landsbjargar á Ísafirði bendir á að síðasta hálfa árið hafi sjóbjargir við Ísafjarðardjúp tekið risastökk fram á við þar sem björgunarsveitin Tindar í Hnífsdal endurnýjaði nýverið harðbotna björgunarbát og Björgunarsveitin Ernir í Bolungarvík eignaðist hraðskreitt og öflugt björgunarskip. Þannig styttist viðbragðstími björgunarsveitanna á norðanverðum Vestfjörðum og þar með öryggi sjómanna og ferðamanna á svæðinu.
Skipið verður nefnt eftir fræknum björgunarmanni
Skipið sem leysir Gunnar Friðriksson af hólmi er norskt og heitir RS Skuld en nýja skipið verður nefnt eftir björgunarmanninum Gísla Jónssyni. Aðeins 18 ára leiddi Gísli björgunarmenn frá Hesteyri með björgunarbúnað að togaranum Agli Rauða í aftakaveðri árið 1955. 16 skipverjum var bjargað í land við afar erfiðar aðstæður.
Nýja skipið er frá Noregi og áformað að sigla því heim til Ísafjarðar í lok maí og stefnt að því að vígja skipið á sjómannadaginn á Ísafirði.