Á vakt allan sólarhringinn!

Deila:

Gísli Jónmundsson skipaeftirlitsmaður, sem starfað hefur hjá HB Granda og forverum félagins um tæplega 40 ára skeið, lét af störfum nú um mánaðamótin sökum aldurs. Margs er að minnast frá löngum starfsferli og Gísli varð góðfúslega við þeirri ósk heimasíðu HB Granda að rifja stuttlega upp hvers vegna hann valdi þennan starfsvettvang.

,,Það var fyrir tilviljun að ég rataði í þetta starf. Kunningi minn bað mig um að hlaupa í skarðið fyrir vélstjóra á togaranum Bjarna Benediktssyni RE, sem Bæjarútgerð Reykjavíkur (BÚR) gerði þá út. Þetta var þokkalega borgað þannig að ég sló til. Þetta var árið 1980 og ég var svo á togaranum Jóni Baldvinssyni RE þar til að BÚR bauð mér fastráðningu sem fyrsti vélstjóri á Ottó N. Þorlákssyni RE 203 sem var nýsmíði frá Stálvík í Garðabæ og þótti mikið tækniundur á sínum tíma. Þar hitti ég fyrir Magnús Ingólfsson skipstjóra, Sigurð Steindórsson stýrimann og Þórð Guðlaugsson yfirvélstjóra  sem verið höfðu á Bjarna Benediktssyni.“

Byrjaði á síðutogara

Þetta var þó ekki fyrsta reynsla Gísla af sjómennsku því hann hafði á unglingsárum verið tvö sumur á síðutogaranum Geir RE, sem faðir hans var skipstjóri á, og síðar var hann á flutningaskipum sem vélstjóri.

,,Ég lauk fjögurra ára námi við Vélskóla Íslands vorið 1972 og smiðjuhlutanum þremur árum síðar. Ég notaði sumrin á þessum tíma til að vinna á fiskibátum og flutningaskipunum og kunni vel við mig á sjó. Það atvikaðist þó þannig að 1994 var ég beðinn að taka við verkstæðinu sem Grandi hf. var með í Bakkaskemmu. Það voru nokkuð margir karlar sem unnu á verkstæðinu sem aðallega þjónustaði skip félagsins. Þau voru nokkuð mörg eftir sameiningu BÚR og Ísbjarnarins og síðar Hraðfrystistöðvarinnar. Innan verstæðisins var vélsmiðja, farartækjaverkstæði, trésmíðaverkstæði og rafvirki og fleira mætti telja.“

 

Mjög krefjandi starf

Gísli starfaði sem yfirmaður verkstæðisins fram til ársins 2000 en þá fluttist hann yfir til skipaeftirlits félagsins.

,,Við vorum þrír við skipaeftirlitið, tveir með togarana og einn með uppsjávarskipin, og þetta var heilmikil vinna ekki síst eftir sameininguna við HB á Akranesi. Okkar starf felst aðallega í því að halda utan um viðhald fiskiskipaflotans, gæta þess að kostnaður fari ekki úr böndunum og skipin séu í stöðugum rekstri. Öll stærri verk eru boðin út, t.d. slipptökur og stærri viðgerðir, en varðandi minni verkin þá leitum við til þeirra aðila sem við treystum og vitum að unnið geta verkin fljótt og vel. Við erum í nánu sambandi við vélstjórana um borð í skipunum og þeir heyra beint undir okkur. Við erum svo heppnir að vera með frábæra vélstjóra og hugsanlega er það því að þakka að vélstjórar margir hverjir hafa lært í smiðjunni og þar með unnið við þann skipakost sem við höfðum hverju sinni. Einnig er farið vel og vandlega yfir umsóknir og hingað er enginn ráðinn sem vélstjóri nema samþykki okkar liggi fyrir,“ segir Gísli en að hans sögn getur starf skipaeftirlitsmanna verið mjög krefjandi.

,,Það má segja að við séum á vakt allan sólarhringinn. Maður getur alltaf átt von á því að eitthvað bili eða óhöpp verði við misjafnar aðstæður, við því þarf að bregðast, því skipin eru á sjó nánast alla daga ársins.  Á hinn bóginn má segja að starfið sé einnig gefandi. Dæmi um það er t.d. allar þær breytingar og endurbætur sem hafa verið á skipum félagsins og einnig að hafa tekið þátt í byggingu og eftirfylgni með nýju ísfisktogurunum. Efst er mér þó í huga það góða fólk, sem ég hef starfað með í gegnum tíðina, og þeirri samheldni HB Granda sem skapað hefur góðan starfsanda. Það er gulls ígildi að hafa góða samstarfsfélaga sem hafa sömu sýn og ganga í takt við mann sjálfan, Það gerir sigra skemmtilegri og erfiðar stundir auðveldari,“ segir Gísli Jónmundsson.

Deila: