Rifnir á hol í nýju makrílfrumvarpi

Deila:

„Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um kvótasetningu á makríl þar sem minnstu útgerðunum á makríl er gert að taka á sig 45% skerðingu í úthlutuðum aflaheimildum. Þessi útgerðaflokkur hefur stundað veiðar með krókum allt frá árinu 2008. Á síðasta ári fengu þessi skip rúmlega 5.000 tonn úthlutað til veiða en verði frumvarpið samþykkt munu þessar útgerðir sitja eftir með einungis 2.700 tonn.“

Svo segir í fréttatilkynningu frá félagi makrílveiðimanna. Þar segir ennfremur:

„Heimildir þessara útgerða eru færðar að mestu til stórútgerðarinnar og restin fer í opinberan leigupott sem á að bera tvöfalt veiðigjald. Þessar litlu útgerðir munu því tapa heimildunum sínum og verða gert að borga leigugjald fyrir að leigja þær aftur af ríkinu. Gjaldið ásamt veiðigjöldum nemur tvöföldu veiðigjaldi annarra útgerða.
Stórútgerðin segist illa eða ekki geta staðið undir helmingi þess fjárhæðar. Minnstu útgerðunum verður því gert að lifa við tvöfaldar álögur með mun dýrari og áhættusamari rekstur.
Þeir útgerðarflokkar sem fá til sín heimildirnar eru stórútgerðin sem bætir við sig um 15% af kvótanum og félagslegur pottur fyrir strandveiðimenn sem er stækkaður um 100%. Eðlilega eru útgerðir smábáta og skipa sem stundað hafa veiðar á makríl með línu-og handfærum (krókum) brjálaðar yfir þessum tillögum.
Misréttið er algjört og verst er að horfa upp á augljós hagsmunatengsl sjávarútvegsráðherra og
formanns atvinnuveganefndar í málinu. Frumvarpinu á síðan væntanlega að skjóta í gegnum þingið
með sem minnstri umræðu til að ljósi verið ekki varpað á verknaðinn. Verði lögin samþykkt á Alþingi er ljóst að málaferlum í makríl er engan veginn lokið.“
Undir tilkynninguna rita talsmenn félagsins þeir  Unnsteinn Þráinsson og Ásmundur Skeggjason.

Deila: