Gengur vel í Rússasjó

Deila:

„Við erum búnir að vera 24 daga í túrnum og það gengur allt vel. Aflabrögðin eru góð, fiskurinn vænn og það viðrar vel. Við stefnum á 40 daga túr en þar af fara um tíu dagar í siglingu til og frá Reykjavík,“ segir Ævar Jóhannsson, skipstjóri á Örfirisey RE, er rætt var við hann af heimasíðu HB bGranda fyrir helgina, en hann og áhöfnin á frystitogaranum eru nú við veiðar í rússnesku landhelginni.

,,Við höfum mest verið út af Murmansk en einnig farið nokkuð víða á eftir fisknum. Við höfum lengst farið langleiðina austur undir Novaja Semlya. Það hefur hjálpað okkur mikið að alls eru sex íslensk skip á svæðinu og við höfum hjálpast að. Það er nauðsynleg þegar leitað er að fiski á mjög stóru hafsvæði,“ segir Ævar en hann upplýsir að annars séu ekki mörg skip í grenndinni. Bara tvö færeysk skip og nokkur rússnesk.

Þorskur er uppistaða aflans í rússnesku landhelginni. Reglur eru nokkuð frábrugðnar því sem t.d. tíðkast í norsku lögsögunni.

,,Við erum hér með þorsk- og ýsukvóta en annað telst aukaafli. Reyndar er kvóti á grálúðu en aflinn er svo lítill að það reynir aldrei á kvótann. Ef við næðum ýsukvótanum, sem er 7-8% af þorskkvótanum, er veiðum lokið sama hve mikið er eftir af þorski. Öðru máli gildir um aukaafla sem má vera 20% af heild. Ef við lentum í því að fá t.a.m. karfa með þorskinum, sem væri meira en 20% af aflanum, þá þyrftum við að færa okkur yfir á annað svæði. Við erum með rússneskan eftirlitsmann um borð og hann sér um að allt fari fram í samræmi við reglugerðina. Það er fínt að hafa hann um borð enda höfum við ekkert að fela.“

Ævar segir þorskinn fram að þessu hafa verið mjög vænan.

,,Það er helst ef farið er grynnra að við fáum þorsk af blandaðri stærð en heilt yfir er þetta allt mjög góður fiskur,“ segir Ævar Jóhannsson.

 

 

Deila: