Góður vöxtur í sölu og rekstrarhagnaði

Deila:

„Annar ársfjórðungur var sannarlega viðburðarríkur fyrir Marel. Óhætt er að segja að skráningin í Euronext kauphöllina í Amsterdam og útgáfa 15% nýs hlutafjár hafi borið hæst á fjórðungnum samhliða áframhaldandi vexti og góðri rekstrarafkomu.

Tekjur námu 327 milljónum evra, sem er 10% hækkun samanborið við sama tímabil í fyrra og rekstrarhagnaður jókst um 15%. EBIT framlegð var 15,2% til samanburðar við 14,6% á öðrum ársfjórðungi síðasta árs,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel um afkomu félagsins á öðrum ársfjórðungi. Hann segir ennfremur:

„Mótteknar pantanir voru 311 milljónir evra sem er 7% aukning frá öðrum ársfjórðungi síðasta árs en lítilleg lækkun frá sterkum fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Við sjáum sveiflur á mörkuðum þar sem aukning er í pöntunum á stærri verkefnum í Asíu og Kína, á meðan hægst hefur á stærri pöntunum í Evrópu og Norður Ameríku. Á móti kemur góður vöxtur í endurnýjunar- og viðhaldsverkefnum hjá viðskiptavinum okkar í Evrópu og Norður Ameríku.

Við erum afar þakklát fyrir það traust sem Marel var sýnt í hlutafjárútboðinu í tengslum við tvíhliða skráningu félagsins á alþjóðlegan hlutabréfamarkað. Þátttakendur voru virtir alþjóðlegir hornsteinsfjárfestar auk einstaklinga og fagfjárfesta, hér heima og erlendis. Alls tóku 4.700 fjárfestar þátt í útboðinu en fyrir skráningu félagsins í Euronext Amsterdam voru hluthafar félagsins 2.500 talsins. Skráningin í Euronext kauphöllina í Amsterdam mun styðja við næstu skref í framþróun Marel þar sem aukinn seljanleiki bréfanna á alþjóðavísu veitir félaginu gjaldmiðil í tengslum við fyrirtækjakaup. Vöxtur félagsins er knúinn áfram af nýsköpun og markaðssókn ásamt ytri vexti.

Að því sögðu erum við á réttri leið með að ná vaxtarmarkmiðum okkar fyrir árið 2026, sem eru 3 milljarðar evra í tekjur og fyrsta flokks arðsemi. Í samstarfi við viðskiptavini okkar viljum við umbylta matvælaframleiðslu á heimsvísu með áherslu á fæðuöryggi, rekjanleika, sjálfbærni og hagkvæmni.”

Skráning í Euronext kauphöllina í Amsterdam

Þann 7. júní 2019 voru hlutabréf Marel í evrum tekin til viðskipta í Euronext kauphöllinni í Amsterdam, til viðbótar við fyrri skráningu félagsins í Nasdaq kauphöllina á Íslandi. Boðnir voru til sölu 100 milljónir nýrra hluta, eða sem samsvarar um 15% af útgefnu hlutafé. Margföld umframeftirspurn var í útboðinu með mikilli eftirspurn frá einstaklingum og fagfjárfestum. Inngreiðsla hlutafjár að teknu tilliti til kostnaðar nemur 352 milljónum evra.

Marel fjárfestir í Worximity Technology Inc.

Í júní 2019 gekk Marel frá samningum um kaup á 14,3% hlut í kanadíska hugbúnaðarfyrirtækinu, Worximity Technology Inc. fyrir 2,5 milljónir Kanadadollara ( 1,8 milljónir evra). Marel hyggst auka hlut sinn í 25% á næstu tólf mánuðum fyrir 2,5 milljónir Kanadadollara.

Worximity býður upp á greiningarlausnir og söfnun rauntímagagna í skýinu sem fara saman við Innova-framleiðsluhugbúnað Marel. Hjá félaginu starfa um 25 manns sem þjónusta yfir 200 viðskiptavini. Megináhersla félagsins er að þjónusta fyrirtæki sem starfa við vinnslu á kjöti, mjólkurafurðum og brauðmeti, og nota Worximity hugbúnaðinn við að nýta hráefni betur, minnka framleiðslutíma og auka afköst og gæði.

Horfur

Markaðsaðstæður hafa verið einstaklega góðar á síðustu árum en eru nú meira krefjandi í ljósi umróts á heimsmörkuðum. Marel býr að góðri dreifingu tekna á milli markaða og iðnaða í gegnum alþjóðlegt sölu- og þjónustunet sitt ásamt breiðu og framsæknu vöru- og þjónustuframboði.

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.

  • Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
  • Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
  • Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.

Áætlaður vöxtur er háður hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og því má gera ráð fyrir að hann verði því ekki línulegur. Reikna má með breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Deila: