Hræjunum sökkt og eitt urðað

Deila:

Búið er að urða eða sökkva öllum grindhvalahræjunum í Garðskagafjöru í Garði. Björgunarsveitin Ægir hefur staðið í ströngu síðustu daga og sökkt yfir ellefu hræjum. Eitt var grafið í sandinn samkvæmt frétt á ruv.is.

Ákveðið var að urða síðasta dýrið þar sem það lá í fjörunni við Garðskagavita. Það hafði farið á flot þegar flæddi að og strandað aftur við vitann, þar sem hræið var grafið í sandfjöruna. Það hefði ekki verið hægt þar sem hvalirnir strönduðu upphaflega við Útskálakirkju.

Sveitarfélagið er ábyrgt fyrir að fjarlægja þá hátt í tuttugu hvali sem ekki tókst að bjarga og hafa rotnað í fjörunni síðustu tvo daga. Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem hvalavaða leitar á land, líklega á eftir makríltorfu. Hvalirnir hafa vakið mikla athygli og fólk hefur gert sér ferð í fjöruna til að virða þá fyrir sér en svæðið er girt af vegna sýkingarhættu.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

 

Deila: