Gildi gegn kaupum HB Granda á sölufélögum í eigu ÚR

Deila:

Lífeyrissjóðurinn mun greiða atkvæði gegn fyrirhuguðum kaupum HB Granda á sölufyrirtækjum Útgerðarfélags Reykjavíkur í Asíu á hluthafafundi HB Granda á morgun.. Sjóðurinn telur þessar fyrirætlanir ekki trúverðugar og að ekki hafi verið sýnt fram á að þessu viðskipti séu hagfells og nauðsynleg fyrir HB Granda. Gildi fer með 8,5% hlut í HB Granda. Eftirfarandi tilkynning var birt á heimasíðu Gildis í gær:

„Fyrir hluthafafundi HB Granda þann 15. ágúst næstkomandi liggur tillaga um að staðfesta ákvörðun stjórnar félagsins um kaup á öllu hlutafé í sölufélögum í Japan, Hong Kong og á meginlandi Kína, sem og þjónustufélagi á Íslandi sem tengist framangreindum félögum. Seljandi er Útgerðarfélag Reykjavíkur sem jafnframt er stærsti hluthafi HB Granda. Umsamið kaupverð nemur um 4,4 milljörðum króna sem lagt er upp með að verði greitt með útgáfu á nýjum hlutum í HB Granda sem samsvarar 7,3% aukningu hlutafjár í félaginu.

Stjórn félagsins hefur þannig í hyggju að hefja sölustarfsemi í Asíu með þeim hætti að verja á verulegum fjármunum til þess að fjárfesta í félögum í eigu Útgerðarfélags Reykjavíkur sem sinna sölustarfsemi á þessum mörkuðum. Viðskiptin virðast eiga sér afar skamman aðdraganda hjá stjórn félagsins. Að mati Gildis eru þessar fyrirætlanir ekki trúverðugar og ekki hefur verið sýnt fram á að aðrar leiðir séu ekki færar til þess að ná fram sömu markmiðum, mögulega með minni tilkostnaði. Viðskipti milli tengdra aðila verða að vera hafin yfir vafa og að mati sjóðsins hefur ekki tekist að sýna fram á að þessi viðskipti séu hagfelld og nauðsynleg fyrir HB Granda.

Gildi hyggst af þessum sökum greiða atkvæði gegn framangreindri tillögu á hluthafafundi HB Granda hinn 15. ágúst næstkomandi.“

 

 

Deila: