Gagnslaus fórn

Deila:

„Í dag eru liðin fjögur ár frá því að Rússar settu innflutningsbann á ákveðnar tegundir matvæla frá Íslandi og nokkrum öðrum löndum. Þessi aðgerð Rússa var svar við ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að styðja viðskiptabann ESB og Bandaríkjanna á Rússa vegna Krímskaga. Fyrir viðskiptabann var Rússlandsmarkaður helsti markaður íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja fyrir uppsjávarafurðir. Þrátt fyrir að fyrirtækin hafi með tímanum fundið nýja markaði fyrir afurðirnar er virðisaukinn af þeim langtum minni enda seljast afurðirnar á mun lægra verði á hinum nýrri mörkuðum en í Rússlandi forðum. Tekjutap hefur því verið verulegt og viðvarandi og er ekki bundið við efnahagsreikning fyrirtækjanna sjálfra heldur eru áhrifin öllu víðtækari og samfélagsleg.“ Svo segir í pistli á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um viðskiptabannið og áhrif þess. Þar segir ennfremur:

„Það voru fá vestræn ríki, ef einhver, sem áttu meiri hagsmuna að gæta en Íslendingar vegna viðskiptabannsins. Sé litið á tölur um innflutning Rússlands frá þeim vestrænu ríkjum sem hlutu sömu örlög, má sjá að hlutdeild varnings, sem bannið náði til, var langhæst hjá Íslandi af heildarinnflutningi einstakra ríkja til Rússlands. Var hlutfallið hátt í 90% á meðan það var að jafnaði um 5% hjá Evrópusambandsríkjum. Næsthæst var hlutfall Noregs, eða hátt í 60%. Vægi þessara vara af útflutningi var jafnframt mun hærra á Íslandi en í öðrum vestrænum ríkjum, eða rúm 3% á móti einungis 0,1% hjá löndum Evrópusambandsins og 0,7% í Noregi. Að þessu sögðu er nokkuð ljóst að áhrif aðgerða Rússa voru öllu meiri hér á landi en í öðrum vestrænum ríkjum.

Ekki svipur hjá sjón
Verðmæti vöruútflutnings frá Íslandi til Rússlands nam 4 milljörðum króna í fyrra. Þetta er einungis fimmtungur af því verðmæti sem flutt var til Rússlands á fyrstu 5 árum þessa áratugar, eða áður en Rússar settu innflutningsbann á Ísland. Á þessu 5 ára tímabili voru sjávarafurðir yfir 90% af verðmæti þess varnings sem flutt var til Rússlands. Vissulega var gengi krónunnar veikara á þessu tímabili en síðustu ár, en sé leiðrétt fyrir því, ásamt því að taka tillit til þeirrar verðbólgu sem verið hefur í Rússlandi, er munurinn enn verulegur. Á þann kvarða var verðmæti vöruútflutningsins í fyrra innan við 30% af því sem það var að jafnaði fyrir viðskiptabann.

Enginn dregur annars fisk úr sjó
Ekki er búið að birta þjónustuviðskipti eftir löndum fyrir árið 2018 og því er ekki hægt að sjá heildarverðmæti útflutnings til Rússlands á því ári. Vel kann að vera að slíkur útflutningur hafi aukist, eins og útflutningstekjur sem tengjast ferðaþjónustunni samfara fjölgun rússneskra ferðamanna hér á landi. Einnig má ætla að aukið framboð á beinu flugi á milli Rússlands og Íslands nú yfir sumartímann komi til með að fjölga rússneskum ferðamönnum og auka enn þær tekjur. Þó er nokkuð víst að sú aukning nemur ekki nærri því sömu útflutningsverðmætum og útflutningur á sjávarafurðum var fyrir bannið, að minnsta kosti ekki á næstunni. Yrði sú fjarlæga staða að veruleika bætir hún ekki upp það tap sem orðið hefur vegna viðskiptabanns Rússa, enda kemur eitt ekki í staðinn fyrir annað þegar hagsmunir ólíkra aðila og byggða eiga í hlut.

Milljarðasamningar sem íslensk hátæknifyrirtæki, sem framleiða búnað fyrir matvælavinnslu og fiskveiðar hafa nýlega landað við fyrirtæki í Rússlandi, munu auka útflutningstekjur Íslands á næstu misserum. Þetta eru vissulega jákvæðar fregnir, enda er það hagur allra að fjölga stoðum þjóðarbúsins. Enn og aftur er þó augljóst að þetta bætir ekki sjávarútveginum tjónið.

Af framansögðu er ljóst að varla er hægt að réttlæta ákvörðun stjórnvalda um að styðja viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins og Bandaríkjanna gegn Rússum fyrir Íslands hönd með því að benda á að útflutningstekjur annarra atvinnugreina en sjávarútvegs séu að aukast. Þá hagfræði má í öllu falli telja sérkennilega.

Nú fjórum árum síðar verður ekki séð að ávinningur þessara viðskiptaþvingana sé nokkur. Framhjá þeim raunveruleika geta stjórnvöld því miður ekki litið.

 

Deila: