Fengu útprentaðan fisk, sviðakjamma og fleira

Deila:

Á mánudaginn fékk Matís í heimsókn merkilega gesti til að kynna sér íslenska frumkvöðlastarfsemi á sviði matvæla ásamt nokkrum verkefnum sem Matís vinnur að í tengslum við matarnýsköpun. Frá þessu er sagt á heimasíðu stofnunarinnar:

Eftir frábæra tónleika kom einkakokkur Ed Sheeran, Josh Harte, í heimsókn og einnig söngkonan Zara Larsson með fríðu föruneyti til að fræðast um öfluga nýsköpunarstarfið sem Matís hefur unnið að á síðustu árum og til að hitta hóp matarfrumkvöðla. Þau fengu að kynnast þrívíddarprentun matvæla sem er hluti af verkefninu FutureKitchen sem er styrkt af EIT Food, en einnig verkefni styrkt af AVS, Tækniþróunarsjóði og FutureFish, með það að markmiði að tengja neytendur betur við uppruna matvæla. Sérfræðingar Matís prentuðu fyrir þau ýmiskonar góðgæti úr íslenskum hráefnum í ólíkum formum. Þá voru þau send inn í heim sýndarveruleika og fengu að upplifa fiskveiðar og fiskvinnslu, auk þrívíddarprentunar á aukaafurðum fisks.

Josh Harte ásamt Herborgu Hjelm.

Josh og matarfrumkvöðlarnir áttu síðan langan síðdegisverð saman þar sem íslensk matarmenning var kynnt, ásamt þeim einstöku hráefnum sem landið hefur upp á að bjóða. Mikið var rætt um sjálfbærni og hvað Íslendingar hafa náð langt á því sviði, ásamt matarsóun en Josh er mjög umhugað um þau málefni. Borið var fyrir Josh gómsætt lambakjöt beint frá bónda frá Fjárhúsinu sem er með aðstöðu í Grandi Mathöll. Sviðakjammi frá samnefndum stað vakti mikla lukku og undran hjá bæði Zöru og Josh, sem fékk sér bita og var mjög hrifinn. Einnig var boðið upp á hægeldaða íslenska bleikju úr mötuneyti Matís sem féll vel í kramið hjá Josh.

Frumkvöðlafyrirtækið Nordic Wasabi sem ræktar og selur alvöru wasabi, kynnti sínar vörur sem pöruðust vel með lambinu og öðrum afurðum sem boðið var uppá. Einnig kynnti Íslensk Hollusta fyrir Josh úrval af sínum náttúrulegu afurðum úr þangi og jurtaríki íslands. Allur maturinn rann svo vel niður með drykkjum frá frumkvöðlafyrirtækjunum Álfur og Himbrima. Álfur bruggar bjór úr kartöfluhýðum sem annars finna lítil sem engin not, og setur þannig sitt mark á að vinna gegn matarsóun. Himbrimi framleiðir gin og aðra sterka drykki sem hafa þá sérstöðu að vera framleiddir með náttúrulegu hráefni úr villtri náttúru Íslands. Sérfræðingar Matís kynntu einnig fyrir hópnum þróunarverkefni tengd íslenskum hráefnum og öflugri vinnu okkar um allt land við að styðja við íslenska matarframleiðslu og menningu, ásamt nýsköpun.

Heimsóknin gekk vel og vöktu íslensku matvælin mikla lukku. Josh segist hafa fallið fyrir landi og þjóð og getur ekki beðið eftir að koma hingað aftur. Hann heldur úti matarbloggi á vegumEIT Food sem Matís er stofnmeðlimur að. Hér má finna upplýsingar um Josh og hér er fyrsta bloggið hans á ferðum sínum með Ed Sheeran. Hann mun blogga um heimsóknina sína til Íslands og Matís á næstu dögum.

Deila: