Þorskstofnar við Færeyjar enn slakir

Deila:

Leiðangrar færeysku hafrannsóknastofnunarinnar í haust sýna að stofnar þorsk og ýsu á landgrunninu eru aftur á niðurleið eftir nokkurn vöxt á árinu 2017. Þorskstofninn á Færeyjabanka er enn í lágmarki, en virðist vera að braggast eftir friðun frá árinu 2009.

Þorskstofninn á Færeyjabanka hefur verið mjög slakur allt frá árinu 2003, meðal annars vegna ofveiði. Þrátt fyrir lokun bankans frá 2009 hefur lítill bati verið sjáanlegur, en ýsan þar hefur eitthvað náð sér á strik. En nú eru vísbendingar um betri tíð. Þorskafli á togtíma hjá rannsóknaskipinu Magnúsi Heinasyni hefur að meðaltali farið úr 20 kílóum á árunum 2004 til 2018 upp í 90 kíló í haust. Batann má rekja til þokkalegs árgangs frá árinu 2015. Það var fyrsta árið í langan tíma sem vart varð við þorskseiði að nokkru marki. Afli á togtíma þarf þó að tvöfaldast til að ná sama stigi og var fyrir 2003. Hins vegar fékkst mikið af ýsu nú.

Stofnar þorsks og ýsu virtust vera að ná sér á strik á árinu 2017 eftir sögulega lægð í meira en áratug. Skýringin á því var fækkun notaðra fiskidaga og betri náttúruleg skilyrði, svo sem aukið fæðuframboð.

Niðurstaða síðasta leiðangurs bendir á hinn bóginn til þess að þorsk- og ýsustofnunum hafi hnignað, þó töluvert sé enn á ferðinni. Þó geti það verið til bóta að mikið af smáfiski hafi komið fram í leiðangrinum.

Kannaðir á magainnihaldi sýna lítið hefur verið af krabbadýrum og sandsíli á landgrunninu og því eru bæði þorskur og ýsa horuð. Þorskur af meðalstærð var álíka rýr og árið 2003, sem var versta árið frá því mælingar hófust árið 1996. Svengd þorskins er helsta skýringin á góðri línuveiði að undanförnu. Þorskurinn tekur beitu betur þegar fæðuna þrýtur.

Loks má nefna að meira veiddist í leiðangrinum af rauðsprettu, blálöngu og skötusel en undanfarin ár.

 

Deila: