Ísfell með fjölbreytt vöruframboð

Deila:

„Við erum hér að kynna okkar vörur og lausnir. Veiðarfæri fyrir allt frá krókabátum upp í fullvaxna togara. Við erum að kynna ýmisleg annað sem við erum með. Við erum með það fjölbreytt framboð að viðskiptavinurinn þarf ekki að fara neitt annað, hann fær allt hjá okkur. Við höfum unnið lengi með Rock en nú erum við komnir með umboð fyrir Rock toghlera frá Færeyjum. Þeir eru búnir að vera lengi í bransanum en við höfum líka verið með fleiri gerðir hlera lengi. Við bjóðum upp á valmöguleika í því. Við höfum líka verið að bjóða troll, sem eru orðin þekkt og notuð af mörgum,“ segir Guðbjartur Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ísfells í samtali á sýningunni Sjávarútvegur 2019.

Flestir birgjar á básnum

„Við erum svo með flesta okkar birgja á básnum og eru að nota sýninguna til að hitta viðskiptavini héðan að heiman og utan. Við erum með marga birgja og má þar nefna Bridon, sem er öflugur og þekktur framleiðandi á vírum. Þá erum við með Fishering Sevice og höfum umboð fyrir Atlantica troll frá þeim. Þeir eru í flottrollunum og þau troll hafa verið í notkun hjá nokkrum skipum hér. Þar má nefna Hoffell, Heimaey, Polar Amoroq og fleiri sem hafa verið með trollin á síld og makríl. Það hefur verið lítið sem ekkert viðhald á þessum trollum og ég held að Hoffellið sé til dæmis með sama trollið á sínu þriðja úthaldi. Það hefur ekki einu sinni komið í land til viðgerða. Ég held að það hljóti að teljast mjög gott ef menn ná að veiða 50.000 til 60.000 tonn í sama veiðarfærið án þess að þurfa að eiga við það að nokkru ráði. Það er góð ending á kíló af veiddum fiski. Snurvoðartóg frá Senso hefur verið í sölu hjá okkur í mörg ár og menn hafa notað það með góðum árangri. Við höfum skrifað undir nokkra samninga um sölu á þeim á sýningunni,“ segir Guðbjartur.

Guðbjartur segir að sýningar af þessu tagi séu notaðar sem fundarstaður. Það sé því ýmislegt um að vera og sýningin sé ljómandi góð. Hér hittist menn og ræði málin og gengið sé frá samningum af ýmsu tagi. Þá sé hægt að rölta um svæðið og sjá hvað er að gerast hjá öðrum og í greininni almennt. Fyrirtækið fari líka á erlendar sýninga, bæði í Noregi og Danmörku. Þangað komi fleiri erlendir viðskiptavinir eins og frá Rússlandi og Austur-Evrópu.

Þjónustustöðvar víða um land

„Við erum svolítið að keyra á því, sem við erum góðir í, en það er þekkingin sem byggst hefur upp innan fyrirtækisins og þjónustustigið er sömuleiðis hátt. Við erum með þjónustustöðvar um land allt. Þær eru í Þorlákshöfn, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík, Ólafsfirði, og Flateyri. Þjónustustöðvarnar hjá okkur vinna allar saman en í Vestmannaeyjum erum við með nótaþjónustu, þar er okkar nótahöfn. Annars staðar er almenn verkstæðis- og veiðarfæravinna, verslanir og þjónusta.

Við erum líka að sinna fiskeldinu í vaxandi mæli. Á Flateyri erum við með þjónustustöð fyrir fiskeldi og erum að setja aðra slíka í Hafnarfirði. Við erum að kaupa öflugust græjurnar í heiminum til nota í þessa þjónustu. Það er fjárfesting upp á um 300 milljónir króna.

Hífi- og fallvarnalausnir

Við bjóðum einnig upp á margskonar iðnarlausnir og með öflugt merki í bindilausnum. Við erum með fatnað, flotta vörulínu frá Regatta. Ögyggis- og flotfatnað fyrir sjómennsku og góðan almennan sjófatnað, bæði frá íslenskum og erlendum framleiðendum. Við erum sömuleiðis með vinnufatnaðarlínu fyrir önnur störf og leggjum mikla áherslu á öryggismál, svosem hífi- og fallvarnalausnir. Við erum með sérþjálfað starfsfólk í þessum málum, sem sinnir hífi- og fallvarnalausnum hjá fyrirtækjum.

Allur hífingabúnaður sem er framleiddur fær „fæðingarvottorð“ sem fylgir honum. Svona búnaður er skoðaður reglulega og allt skráð niður. Það þarf að uppfylla ákveðnar öryggiskröfur. Verði til dæmis slys vegna þess að hífibúnaðar slitni, geta  menn farið í „fæðingarvottorðið“ og skoðað söguna, hvað hafi verið endurnýjað og hvernig búnaðurinn hafi verið notaður. Við erum með samninga á þessu sviði við flest stóru fyrirtækjanna á landinu, álverin, virkjanir, Jarðboranir og fleiri. Við erum líka með fallvarnabúnað sem við erum að selja og Orkuveitan og Icelandair eru til dæmis að nota hann. Það fer til dæmis enginn upp á flugvélarvæng án þess að vera í línu eða belti. Mikil vitundarvakning hefur orðið hjá fyrirtækjum almennt að vera með öryggismálin í lagi. Það skiptir gríðarlegu máli bæði til sjós og lands eins og við sjáum af því hve slys á sjó eru orðin fá eftir aukna slysavarnafræðslu. Þetta gildir líka um fiskvinnslu í landi og önnur iðnaðarfyrirtæki. Allir vilja hafa öryggismálin í lagi og nú þurfa þau vottun um að þessi mál og skráningar séu í lagi. Menn mega ekki gleyma sér að láta skoða búnaðinn, enda geta þeir þá lent í erfiðum málum. Við setjum upp búnað og bjóðum upp á námskeið um notkun búnaðarins og eftirlit með honum. Þessi þáttur í starfseminni hefur farið vaxandi og eru allnokkrir starfsmenn bara í þessu allan ársins hring,“ segir Guðbjartur.

Nýsköpun í hermun

„Það er svo nýsköpun hjá okkur að nota hermun við veiðarfærahönnun, sérstaklega í togveiðarfærum. Hún er að skila okkur gríðarlega góðum upplýsingum og árangri. Sú tækni gerir það líka að verkum að miklu fljótlegra er að breyta veiðarfærum, sé þess þörf. Það er orðið vel þekkt að nota hermun bæði í veiðarfæragerð og skipahönnun. Menn eru ekkert að smíða heilu og hálfu módelin til að fara með í tanka lengur. Þetta er bara gert í tölvum. Menn hafa líka verið að flæðireikna trollbelgi. Við höfum í þessu skyni fjárfest í neðansjávarmyndavél. Hún er sett á ákveðna staði í veiðarfærinu og síðan eru teknar út úr henni myndir sem sýna hvernig veiðarfærið er a vinna. Þetta á til dæmis vel við, þegar menn eru að setja glugga á pokann til að hleypa fiski út, þegar of mikið er komið í. Við höfum náð ansi skemmtilegum myndum af því þegar glugginn opnast og fiskurinn streymir þar út,“ segir Guðbjartur Þórarinsson.

 

 

Deila: