Alþjóðleg ráðstefna um plast í Norðurhöfum

Deila:

Ísland fer nú með formennsku í Norðurskautsráðinu og er jafnframt í forsæti í Norrænu ráðherranefndinni. Í tengslum við þessa formennsku hyggst Ísland leggja áherslu á umræðu um leiðir til þess að minnka áhrif plastmengunar í umhverfi sjávar og þá með sérstaka áherslu á Norðurslóðir. Þessi áhersla mun endurspeglast í starfi Norðurskautsráðsins á tímabili formennskunnar og í því samhengi hyggst Ísland standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um plast og plastmengun á Norðurslóðum í Reykjavík dagana 21.-23. apríl 2020.

Ráðstefnan er ennfremur styrkt af Hafrannsóknastofnun og eftirfarandi fjölþjóðlegum stofnunum: Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES), Umhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna (UN Environment Program), OSPAR-samningnum um verndun Norðaustur-Atlantshafsins (The OSPAR Commission), Hafrannsóknanefnd UNESCO (IOC UNESCO), Kenndyskólanum við Harward háskóla (The Harward Kennedy School), Alþjóðlega Norðurheimsskauts vísindaráðinu (IASC), Háskóla Norðurslóða (UArctic), Alþjóða Kyrrahafshafrannsóknaráðið (PICES) og Vinnunefnd Norðurskautsráðsins um verndum Norðurslóða (PAME).

Eftirfarandi efni verða tekin til umfjöllunar á málstofum ráðstefnunnar:

  • Uppruni plasts á Norðurslóðum
  • Áskoranir á Norðurslóðum í tengslum við losun úrgangs
  • Aðferðafræði við rannsóknir á stórum plastögnum sem og örplasti
  • Vöktun á plasti í Norðurhöfum, skilgreiningar á grunn viðmiðunum
  • Áhrif plastmengunar á Norðurslóðum, eiturefnavistfræði og þjóðhagslegir þættir
  • Kynning á NorMar rannsóknarverkefninu þar sem m.a. er fjallað um alþjóðlega staðla hvað varðar skilgreiningar, aðferðafræði og greiningar
  • Lausn plastvandans, bestu leiðir á heimsvísu til þess að draga úr plastógninni
  • Aðgerðaáætlun um hvernig unnt er að vinna á plastvandanum, samhæfðar aðgerðir í samvinnu við iðnfyrirtæki
  • Lokaumræður áhrifamanna í stjórnmálum um næstu skref

Undirbúningur ráðstefnunnar er nú í fullum gagni bæði á vegum alþjóðlegrar vísindanefndar og framkvæmdanefndar sem skipuð er innlendum aðilum. Hafrannsóknastofnun á fulltrúa í báðum þessum nefndum og hafa þeir verið virkir í undirbúningnum.

 

Deila: