Fjallað um nýju skipin í Ægi

Deila:

Umfjöllun um nýju skipin sem hafa verið að koma til landsins hvert af öðru er umfangsmikil í nýútkomnum Ægi. Þar er fjallað um Harðbak, Bergey og Gjögurskipin Vörð og Áskel. Þessi skip eru ýmist að hefja veiðar eftir niðursetningu búnaðar á millidekki, eða verið er að vinna í þeim. Öll þessi skip eru úr sjö skipa seríu, sem smíðuð er hjá norsku skipasmíðastöðinni Vard. Í þeim er fjölbreyttur búnaður til meðferðar á fiski frá íslenskum framleiðendum.

Ægisviðtalið er að þessu sinni við Þorlák Halldórsson, nýkjörinn formann Landssambands smábátaeigenda. Hann segir stórútgerðir vera að ryksuga einyrkjana upp. Rætt er við Hannes Sigurðsson um veiðar, vinnslu og markaðssetningu á beitukóngi og við Sæmund Elíasson, starfsmann Matís á Akureyri mikla möguleika til nýsköpunar og verðmætaaukningar í íslenskum sjávarútveg.

Þá er fjallað horfur á loðnuveiðum, en Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að engar veiðar verði stundaðar í vetur. „Loðnuleysi í vetur yrði mikið áfall,“ segir Siggeir Stefánsson, framleiðslustjóri Ísfélags Vestmannaeyja á Þórshöfn.

„Efling grunnrannsókna á loðnustofninum er fyrir löngu orðin tímabær. Það hefur nánast verið líkt og náttúrulögmál að mikil óvissa sé um loðnustofninn, stærð hans og mögulegar veiðar á næstu vertíð. Oftar en ekki hefur ræst úr þegar loðnan er mæld í upphafi árs og gefinn út byrjunarkvóti á veiðar sem svo aftur hefur gjarnan verið aukinn. Svona er staðan einmitt núna að loknum haustmælingum á loðnu. Ekki eru forsendur til að mæla með upphafskvóta að óbreyttu og eina vonin er sú að meira sjáist í mælingum þegar kemur fram yfir áramótin. Gerist það ekki verður loðnuleysisár – annað árið í röð,“ segir Jóhann Ólafur Halldórsson, ritstjóri Ægis í leiðara blaðsins.

Deila: