Möppurnar öðlast nýtt líf

Deila:

Í tengslum við undirbúning fyrir pappírslaust vinnuumhverfi voru losaðar yfir 1.000 möppur í höfuðstöðvum Eimskips á dögunum.  Möppurnar voru margar í góðu ásigkomulagi og því var ákveðið að hafa samband við Múlalund og bjóða þeim möppurnar.

Múlalundur, vinnustofa SÍBS, er öflugt þjónustu- og framleiðslufyrirtæki í Mosfellsbæ sem rekið er af SÍBS í því skyni að skapa störf fyrir fólk með skerta starfsorku. Starfsmenn Múlalundar voru þakklátir fyrir gjöfina sem mun nýtast þeim vel. Þær möppur sem eru í góðu ásigkomulagi fara í endursölu en spjöldin úr þeim möppum sem ekki er hægt að endurnýta munu gegna nýju hlutverki sem milliþjöl í kössum og járnin verða endurnýtt í nýja framleiðslu.

„Það gleður okkur að geta stutt við þá öflugu starfsemi sem Múlalundur stendur fyrir og ekki síður að vita að endurvinnslan sé í hámarki.

Sigurður Úlfarsson, framkvæmdastjóri Múlalundar, sendi okkur meðfylgjandi mynd af því þegar sendingin var afhent í Múlalundi,“ segir á heimasíðu Eimskips.

Deila: