Nýr fjármálastjóri hjá Samherja í Hollandi
Steingrímur H. Pétursson hefur verið ráðinn fjármálastjóri á skrifstofu Samherja í Hollandi. Steingrímur hefur fjölþætta reynslu úr íslensku viðskiptalífi og býr yfir mikilli sérþekkingu á sviði fjármála.
Steingrímur kemur til Samherja frá Högum þar sem hann gegndi stöðu framkvæmdastjóra fjármála- og viðskiptaþróunar en þar á undan var hann framkvæmdastjóri fjármálasviðs Olís um þriggja ára skeið. Steingrímur hefur einnig gegnt stöðu framkvæmdastjóra hjá Eimskip, Sandblæstri og Málmhúðun og Fjárfestingarfélaginu Sjöfn en hóf starfsferil sinn að loknu háskólanámi hjá KPMG Endurskoðun á Akureyri þar sem hann vann í fjögur ár.
Steingrímur er með meistaragráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Hann er kvæntur Lindu Björk Sævarsdóttur og eiga þau þrjú börn. Samherji býður Steingrím hjartanlega velkominn til starfa.